Í nýbirtu fjármálafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur fram að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“
Lestu meira
Aukið rekstrarhæfi með sölu lóða og lengingu skulda
RÚV hefur getað aukið rekstrarhæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og framlögum á síðustu árum. Í fyrra var afkoma RÚV jákvæð um 321 milljón króna og þar skipti hagnaður af sölu á byggingalóðum í Efstaleiti sköpum, en heildarsöluverð þeirra var um tveir milljarðar króna.
Tillögur kynntar fyrir ríkisstjórn á föstudag
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur unnið að tillögum um aðgerðir í fjölmiðlamálum sem í á að felast að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.
Unnið var að söfnun gagna og því að leggja mat á tillögur til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi síðastliðið vor og sumar og Lilja kynnti tillögurnar á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Þær hafa þó ekki verið gerðar opinberar og ekki er sjáanlegt að gert sé ráð fyrir sérstökum útgjöldum vegna þeirra í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun. Þar segir þó að unnið sé „að aðgerðum á grundvelli úttekta og skýrslna um stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“