Í nýbirtu fjármálafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur fram að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“
Ljóst er að miðað við þetta munu tekjur RÚV aukast umtalsvert á næsta ári. Þær voru 6,6 milljarðar króna í fyrra en þar af voru 2,3 milljarðar króna samkeppnistekjur, sem felast fyrst og síðast í sölu auglýsinga og kostunar. RÚV. Ríkisfjölmiðillinn var með einkarétt sýningum leikja á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar og miðilinn var harðlega gagnrýndur af einkareknum miðlum fyrir að sópa til sín auglýsingamarkaðnum í tengslum við þann viðburð. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í samtali við RÚV í júní að hann gerði ráð fyrir því að tekjur af auglýsingum í kringum HM yrðu rétt yfir 200 milljónir króna. Því má búast við að tekjur RÚV vegna samkeppnisreksturs muni einnig aukast á næsta ári, til viðbótar við tekjur miðilsins vegna fjárframlaga ríkisins. Alls vinna á annan tug manns í fullu starfi hjá RÚV við að sinna sölu á auglýsingum, sölu á efni og leigu á dreifikerfi.
Aukið rekstrarhæfi með sölu lóða og lengingu skulda
RÚV hefur getað aukið rekstrarhæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og framlögum á síðustu árum. Í fyrra var afkoma RÚV jákvæð um 321 milljón króna og þar skipti hagnaður af sölu á byggingalóðum í Efstaleiti sköpum, en heildarsöluverð þeirra var um tveir milljarðar króna.
Tillögur kynntar fyrir ríkisstjórn á föstudag
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur unnið að tillögum um aðgerðir í fjölmiðlamálum sem í á að felast að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.
Unnið var að söfnun gagna og því að leggja mat á tillögur til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi síðastliðið vor og sumar og Lilja kynnti tillögurnar á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Þær hafa þó ekki verið gerðar opinberar og ekki er sjáanlegt að gert sé ráð fyrir sérstökum útgjöldum vegna þeirra í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun. Þar segir þó að unnið sé „að aðgerðum á grundvelli úttekta og skýrslna um stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“