Til stendur að koma á fót Ráðgjafastofu innflytjenda. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þess efnis sem lögð verður fram á komandi þingi.
Hann segir í samtali við Kjarnann að verið sé að vinna með svokallaða „first stop shop“-hugmynd sem gengur út á fólk geti leitað á einn stað fyrir allar upplýsingar. Hann segir að á Ráðgjafastofunni eigi fólk sem flytur til landsins að geta fengið ráðleggingar, sama hvaðan það kemur eða hvar það er búsett á Íslandi.
Í lýsingu á tillögunni segir að það sé stórt skref öllum að flytjast til annars lands og hefja þar nýtt líf. „Ýmsar ástæður búa að baki því skrefi, en hvort sem það er stigið af sjálfsdáðum eða af nauðsyn slæmra aðstæðna, þá er öllum í hag að njóta sem bestrar leiðsagnar um hið nýja samfélag. Bætt aðgengi að upplýsingar gerir breytingar á högum fólks léttari og stuðlar um leið að því að fólk verður mun fyrr virkt í samfélaginu og getur fyrr farið að gefa af sér.“
Kolbeinn bendir á að einfalda þurfi kerfið fyrir fólk sem flytur hingað til lands. „Við teljum að gott sé að byrja á þessu verkefni,“ segir hann og bætir því við að þetta snúist fyrst og fremst um hagsmuni fólksins sjálfs.
Óvíst hver kostnaður verði
Á Ísafirði er vísir að slíkri ráðgjafastofu en þar er fjölmenningarsetur sem hefur það hlutverk að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru á Íslandi.
Kolbeinn segir að Ráðgjafastofan sé ætluð öllum þeim sem hingað koma til lands; innflytjendum, flóttamönnum og hælisleitendum. Samstarf verði við til að mynda Rauða krossinn, verkalýðshreyfinguna og ýmsa aðra aðila sem koma að málaflokknum.
Óvíst er hve mikill kostnaður felst í stofnun Ráðgjafarstofu innflytjenda og hve mikil áhrif stofnun hennar hefur á ríkissjóð. Samkvæmt Kolbeini er vonast til að samstarf náist við sveitarfélögin um rekstur og þá sé viðbúið að einhver þjónusta færist til stofunnar frá öðrum sviðum og stofnunum og fjármunir fylgi með. Til samanburðar nefnir hann árlegan kostnað við ríkisstofnun með fimm starfsmenn en hann er um 55 milljónir króna.
Fjöldi erlendra ríkisborgara fjórfaldast
Kjarninn fjallaði fyrr í sumar um fjölgun landsmanna á fyrri hluta ársins 2018 en rekja má fjölgunina til þess að erlendir ríkisborgara fluttu hingað til lands. Þeir voru orðnir 41.280 talsins og fjölgaði um 3.328 frá áramótum, eða um 8,7 prósent. Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 2.360 á tímabilinu og er því ljóst að landsmönnum hefði fækkað ef ekki hefði verið fyrir aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ. Fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum.
Alls eru Íslendingar rúmlega 353.000 talsins og eru erlendir ríkisborgarar tæplega tólf prósent af íbúum landsins. Þetta kom fram í mannfjöldatölum Hagstofu Íslands í júlí síðastliðnum sem sýna stöðuna í lok júní.
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 97 prósent frá lokum árs 2011. Það þýðir að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á sex og hálfu ári. Þeir hafa aldrei verið fleiri og fjölgun þeirra hefur aldrei verið hraðari en á síðustu 18 mánuðum.