Skúli Mogensen forstjóri WOW air sendi tölvupóst á alla starfsmenn fyrirtækisins eftir hádegi í dag þar sem hann segir að skuldabréfaútboði flugfélagsins miði vel áfram. Vefur Viðskiptablaðsins greindi fyrst frá.
Skúli segir í póstinum að unnið sé dag og nótt við að ljúka ferlinu og tryggja þannig langtíma fjármögnun WOW air. Endamarkið sé í augsýn og segist Skúli öruggur að það takist að ljúka útboðinu.
Það sé hins vegar eðlilegt að það taki tíma að ganga frá smáatriðum og lausum endum áður en gengið verði endanlega frá fjármögnuninni. Skúli segist einnig gera ráð fyrir því að fjölmiðlar haldi áfram að fjalla um félagið og segist skilja að starfsmenn séu undir þrýstingi frá vinum og vandamönnum sem vilji vita hvað gangi á hjá flugfélaginu. Starfsfólki verði veittar frekari upplýsingar um leið og hægt er.
Þangað til vill Skúli að allir haldi áfram að sinna því góða starfi sem unnið er hjá félaginu á hverjum degi.
Skúli sagði útboðið á lokametrunum í síðustu viku og myndi ljúka öðru hvoru megin við liðna helgi. Upplýsingafulltrúi WOW air sagði hins vegar nú á þriðjudag að von væri á niðurstöðu í skuldabréfaútboðið í kringum komandi helgi.
Greint var frá því í gær að Skúli reyndi nú, ásamt stjórn félagsins og ráðgjöfum, að fá bankana, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann, til að koma að fjármögnun félagsins og tryggja þar með rekstur félagsins.
Á undanförnum vikum hefur WOW Air reynt að tryggja fjármögnun upp á 50 til 100 milljónir evra, eða sem nemur allt að ríflega 13 milljörðum króna.
Norska verðbréfafyrirtækið Pareto hefur yfirumsjón með ferlinu, og hefur WOW Air kynnt áform og rekstur sinn fyrir erlendum fjárfestum. Ferlið hófst í lok mánaðarins, eins og fram hefur komið í fréttum og fréttaskýringum á vef Kjarnans. Greinendur Pareto spá því að tap WOW Air í ár verði 3,3 milljarðar króna, en rekstrarumhverfi flugfélaga hefur versnað töluvert að undanförnu, ekki síst vegna harðnandi samkeppni og vaxandi olíukostnaðar.
Tölvupóstur Skúla Mogensen til starfsmanna WOW air:
Dear Friends,
As all of you know we have been working day and night on closing our bond offering and securing the long term financing of Wow air. We are making good progress and can see the finishing line and I am very confident that we will get this done. However, it is completely normal that the final details will take some time to sort out before we can finalize everything.
I expect the media will continue writing about us and I fully understand that you are under pressure from friends and family who are wondering what is going on.
We will give you more information as soon as possible.
In the meantime, let‘s all continue to do the great work we are doing every single day.