Skúli Mogensen segir WOW air ætla að safna um 200 til 300 milljónum dollara, eða 22 til 33 milljörðum íslenskra króna, í nýtt hlutafé í hlutafjárútboði sem fyrirtækið ætlar að ráðast í á næstu tveimur árum. Þetta segir Skúli, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Financial Times. Skúli ætlar að selja tæplega helming fyrirtækisins, án þess þó að nefna heildarverðmæti flugfélagsins.
Financial Times greinir frá því að síðustu tvö rekstrarár hafi reynst WOW air erfiðlega, fyritækið hafi tapað 26,5 milljónum dollara, eða þremur milljörðum íslenskra króna, fyrir skatt í fyrra og gert ráð fyrir að tap þessa árs muni nema sex milljónum dollara eða um 600 milljónum króna. Vonast sé til þess að á næsta ári muni fyrirtækið hins vegar skila hagnaði.
Skúli segir að WOW air hafi ekki tekist að takmarka kostnað félagsins, hækkun eldsneytisverðs hafi unnið gegn þeim og WOW sé ekki með varnir gegn hækkunum sem hann vill endurskoða. Í frétt Financial Times segir að olíuverð hafi hækkað umtalsvert á liðnum mánuðum, tunnan hafi verið á 92 dollara í lok ágúst og hækkað um 25 prósent á einum ársfjórðungi. Önnur flugfélög víðs vegar í heiminum hafi hins vegar skilað methagnaði árið 2017, þvert á stöðuna hjá WOW air.
WOW air sendi fyrir helgi frá sér tilkynningu þar sem sagði að skuldabréfaútboði félagsins muni ljúka á morgun. Gefin verða út skuldabréf fyrir minst 50 milljónir evra, eða rúma 6 milljarða króna.