Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og formaður stjórnar Orku náttúrunnar, mun ekki ræða frekar opinberlega um starfslok starfsfólks hjá Orku náttúrunnar að svo stöddu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá honum í dag.
Fram kom í fréttum fyrir helgi að Bjarni Már Júlíusson hefði verið rekinn sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar vegna óviðeigandi hegðunar gagnvart samstarfsfólki sínu.
Í yfirlýsingu Bjarna kemur jafnfram fram að honum hafi borið skylda til að skýra frá ástæðu starfsloka framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar. „Um opinberar umræður um málefni annars starfsfólks en æðsta stjórnanda gildir öðru máli. Óski starfsmaður að fara betur yfir skýringar á ástæðum starfsloka, stendur slíkt að sjálfsögðu til boða,“ segir hann.
Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem sagt var upp störfum hjá Orku náttúrunnar fyrir viku, tjáir sig um málið á Facebook í dag. Hún gagnrýnir forstjóra Orkuveitunnar harðlega og segist ætlar að leita réttar síns af fullum þunga. Í stöðuuppfærslu sinni fer hún ítarlega yfir brottrekstur sinn hjá ON, sem hún segir tilhæfulausan, og segist hún reið og slegin vegna afgreiðslunnar á málinu öllu.
Núna klukkan 9:00 í morgun er nákvæmlega vika síðan ég var rekin án nokkurra haldbærra skýringa úr stöðu forstöðumanns...
Posted by Áslaug Thelma Einarsdóttir on Monday, September 17, 2018
Berglind Rán tekur tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra
Ákveðið hefur verið að forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Berglind Rán Ólafsdóttir, taki tímabundið við starfi framkvæmdastjóra ON en ekki forstöðumaður tækniþróunar, eins og áður var tilkynnt.
Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún kom til starfa hjá Orku náttúrunnar fyrir ári og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.