Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Morgunblaðið í aðsendri grein í blaðinu í dag, sem ber fyrirsögnina „Að troða sér í sleik“, fyrir efni Staksteina þess í gær.
Þar var endurbirtur pistill eftir Halldór Jónsson, verkfræðing og áhrifamann innan Sjálfstæðisflokksins til áratuga, sem hann birti á Moggabloggi sínu og kallar „Dömufrí“. Áslaug Arna segir í grein sinni að sér þyki „verra að sjá að þessum orðum var hampað á síðum Morgunblaðsins.“ Hún segir enn fremur að stærsti árangur #metoo-byltingarinnar hafi verið sú að þeir sem tileinkuðu sér ekki virðingu í samskiptum myndu að lokum dæma sjálfa sig úr leik. „Það er óþarfi fyrir Morgunblaðið að skipta þeim aftur inn á,“ segir Áslaug Arna.
„Trukka“ og komast í sleik
Í umræddum pistli fjallaði Halldór um ásakanir sem settar hafa verið fram gagnvart Brett Kavanagh, sem Donald Trump hefur tilnefnd sem næsta hæstaréttardómara Bandaríkjanna, en Kavanagh hefur verið ásakaður um að hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi snemma á níunda áratugnum. Halldór líkir ásökunum hans við það þegar hann reyndi sjálfur reyndi að vingast við stúlkur á dansæfingum í Menntaskólanum í Reykjavík á sínum tíma. Í pistlinum segir orðrétt: „Þegar ég hugsa til baka hvernig maður hegðaði sér á dansæfingum í MR. Búinn að tendra sig upp á brennivíni og Camelsmóki bauð maður stelpunum upp og reyndi allt til að vanga þær og trukka og helst að komast í sleik,“ segir Halldór í pistli sínum og bætir við. „Þessi hegðun myndi koma í veg fyrir að ég yrði samþykktur í embætti ef Trump myndi vilja hygla mér eins og Kawanough eða hvernig það er stafað. Sá kall hegðaði sér eitthvað svona á menntaskólaböllum fyrir einum þrjátíu árum. Nú ætla demókratarnir að nota það til að hindra að þessi dóni komist í Hæstarétt Bandaríkjanna.“
Í fyrradag las ég stuttan pistil þar sem slík viðhorf voru höfð í flimtingum. Mér þótti verra að sjá að þessum orðum var hampað á síðum Morgunblaðsins. Höfundur pistilsins hugsar til baka til þeirra tíma þegar það þótt sjálfsögð hegðun að „tendra sig upp á brennivíni og Camel-smók“ og bjóða stelpunum upp og reyna „allt til að vanga þær og trukka og helst að komast í sleik“. Gefið er í skyn að svona hafi þetta bara verið og þar með eðlilegt.“
Hefur ekkert með pólitískan rétttrúnað að gera
Áslaug Arna biður svo lesendur að velta því fyrir sér hvort þessi hegðun hafi nokkru sinni verið eðlileg, jafnvel þótt að hún hafi verið algeng á árum áður. „Að vísa í gamla tíma með rökum um að svona hafi þetta verið réttlætir ekki ofbeldi eða kvenfyrirlitningu. Það minnir aðeins á þá staðreynd að á þeim tíma stigu brotaþolar ekki fram og sögðu ekki frá brotum eða ósæmilegri hegðun í sinn garð.
Gleymdist að spyrja ömmurnar
Hún rifjar svo upp upphaf #metoo-byltingarinnar í fyrra og pistil sem hún skrifaði þá þar sem hún sagði að stærsti árangur þeirrar umræðu sem nú hefði skapast væri að þeir sem tileinkuðu sér ekki virðingu í samskiptum mundu að lokum dæma sjálfa sig úr leik. Það er óþarfi fyrir Morgunblaðið að skipta þeim aftur inn á.“
Þótt einhverjum kunni að finnast nóg komið af umræðu um #metoo þá sé sú bylting komin til að vera. „Mögulega hefur gleymst að spyrja ömmur okkar hvernig þær upplifðu þá tíma þegar strákunum fannst eðlilegt að skvetta í sig brennivíni og reyna allt til að komast í sleik.“