Markaðsvirði Icelandair Group hélt áfram að falla í dag, en félagið lækkaði um 2,24 prósent í viðskiptum dagins. Virði félagsins er nú 33,6 milljarðar króna. Það er til marks um hve mikla dýfu félagsins hefur tekið á markaði, en gengi bréfa félagsins er nú 6,9 en fyrir rúmum tveimur árum var það tæplega 40.
Eins og fjallað hefur verið ítarlega um á vef Kjarnans á undanförnum vikum, þá hefur rekstrarumhverfi flugfélaga versnað nokkuð á undanförnum misserum. WOW Air vinnu enn að því að styrkja fjárhag félagsins, til að tryggja reksturinn til framtíðar, og afkoma Icelandair hefur farið versnandi.
Olíuverð hefur farið hækkandi en verð á hráolíutunninni er nú komið upp undir 80 Bandaríkjadali, og hefur það hækkað um tíu prósent á tveimur vikum. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkunum, samkvæmt greiningum sem Wall Street Journal hefur að undanförnu vitnað til í umfjöllun sinni.
Afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir því EBITDA rekstrarhagnaður Icelandair verði 80 til 100 milljónir Bandaríkjadala á þessu ári, eða sem nemur 8,5 til 11 milljörðum króna. Björgólfur Jóhannsson sagði starfi sínu sem forstjóri laus, 27. ágúst síðastliðinn, en í tilkynningu sagði hann að félagið stæði fjárhagslega sterkt á þessum tímapunkti, og tilbúið að takast á við sveiflukennt umhverfi flugiðnaðarins.
Verðmiðinn á Icelandair er nú í lægsta punkti sé horft yfir síðustu 5 árin á markaði. Eigið fé félagsins var um mitt þetta ár tæplega 59 milljaðar. Eða sem nemur næstum tvöföldum verðmiða á markaði þessi misserin.