Skrifstofa Alþingis hefur sent Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis bréf, vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga um undirbúning og kostnað við hátíðarþingfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí. Upplýst var um endanlegan kostað við fundinn í síðustu viku, eins og Kjarninn greindi frá, og var heildarkostnaður alls 87 milljónir króna eða 41 milljón um fram áætlun.
Í bréfinu, sem birt er á vef Alþingis, kemur fram að við gerð rekstraráætlunar Alþingis fyrir árið 2018 hafi verið ákveðið að taka frá 45 milljónir króna til verksins en að öðru leyti reiknað með að greiða kostnað með rekstrarfjárveitingum og höfuðstól. „Hér var því ekki um eiginlega kostnaðaráætlun að ræða, enda ekki forsendur til þess, en nokkurs misskilnings hefur gætt um þetta í umræðunni. Á þeim tímapunkti var ljóst að talsverð óvissa væri um ýmsa kostnaðarliði enda var jafnan tekið fram við umfjöllun um málið innan Alþingis, m.a. á fundi forsætisnefndar 19. janúar 2018, að kostnaður við verkefnið gæti orðið meiri en sú fjárhæð sem ráðstafað hafði verið til þess í rekstraráætlun Alþingis, sbr. einnig svar forseta við fyrirspurn þingmanns nokkru síðar,“ segir í bréfinu.
22 milljóna króna lýsing á fundinum
Kostnaðarliðurinn „Lýsing“ hefur verið gagnrýndur nokkuð harkalega, enda kostaði lýsing fundarins, sem haldinn var um mitt sumar, rúmar 22 milljónir króna. Í síðustu viku kom fram að kostnaður hafi farið nokkuð umfram áætlun einkum vegna þess að tekin hafi verið ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu bæðum þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu. „Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar.
Í bréfinu sem skrifstofan hefur nú sent þingforseta segir um þetta að snemma í undirbúningnum hafi hafist umræður um nauðsynlegan tæknibúnað (hljóð, lýsingu, rafmagn o.s.frv.) og kröfur til hans. „Að mörgu var að hyggja, hljóð þurfti að berast nokkra leið frá þingpallinum, lýsing að henta beinni sjónvarpsútsendingu sem mikill metnaður var lagður í og þá þurfti að leiða rafmagn að þingstaðnum. Eftir afgreiðslu tilboða í uppsetningu þingpallanna var kallað eftir verðtilboðum í stærstan þátt tæknimálanna frá þeim fyrirtækjum sem upphaflega höfðu lagt inn verðtilboð í pallana. Unninn var samanburður milli þessara tilboða og var niðurstaðan sú að taka tilboði frá Exton í tæknimálin í heild sinni. Þegar verðtilboðin í tæknimálin (hljóð- og ljósabúnað ásamt burðarkerfi og upphengibúnaði auk vinnu tæknimanna við uppsetningu búnaðarins og stýringu hans) og mat á þeim lá fyrir, sem reyndist vera um 25 m.kr., var fyrst hægt að gera sér raunhæfa grein fyrir heildarkostnaði við verkefnið í heild sinni, þ.e. ríflega 80 m.kr. Um öll tæknimál tengd þingfundinum hafði Framkvæmdasýsla ríkisins og verkkaupi (Alþingi) samráð við fjölmarga aðila.“
Viðkvæmur fundarstaður
Í bréfinu er sérstaklega tekið fram að Þingvellir séu á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og „helgur staður fyrir þjóðina. Áhersla var því lögð á að reyna að mæta öllum kröfum um að vernda sem mest svæðið þar sem pallurinn var settur upp. Þegar pallar og allur búnaður hafði verið fjarlægður að kvöldi fundardags, 18. júlí sl., var ekki hægt að sjá að þar hefði verið fundur fyrr um daginn.“
Þá er þess einnig getið að skrifstofa Alþingis hafi leitast vi að svara öllum þeim fyrirspurnum sem borist hafi, ýmist frá þingmönnum, fréttamönnum eða einstaklingum, um kostnað við hátíðarfundinn.