N1 hf. mun héðan í frá heita Festi hf. samkvæmt nýjum samþykktum hluthafafundar félagsins í dag.
Þá var á samþykkt endurskoðuð starfskjarastefna fyrir félagið, en hún gerir ráð fyrir að hámarks kaupauki forstjóra geti orðið að hámarki 3 mánuðir í stað 6 mánaða áður, óheimilt sé að greiða umfram ráðningarsamning við uppsögn forstjóra. Vill stjórn félagsins með þessu skapa fordæmi í íslensku atvinnulífi með því að „sýna hógværð í breytilegum launagreiðslum til æðstu stjórnenda.“
Ásmundur Einar Daðason ráðherra vinnumála ræddi sérstaklega kaupaukagreiðslur N1 í ræðu sinni á Alþingi á dögunum, þar sem hann meðal annars sagði „ég segi við lífeyrissjóðina og aðra sem eiga í þessu fyrirtæki að þessari vitleysu verður að ljúka. Þessa tillögu verður að draga til baka.“
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem er stærsti hluthafi N1 fundaði um þessi áform stjórnar N1 að taka að nýju upp kaupaukakerfi og hið sama gerði stjórn Gildis lífeyrissjóðs.
Stjórn félagsins ákvarð í kjölfarið að leggja fram nýja tillögu að starfskjarastefnu fyrir hluthafafundinn í dag, með breyttum og hófsamari tillögum, sem þó gera ráð fyrir möguleikanum á kaupaukum.
Björgólfur Jóhannsson fyrrverandi forstjóri Icelandair kemur nýr inn í stjórn félagsins en með honum í stjórninni verða eftir kosningu nýrrar stjórnar í dag þau Guðjón Karl Reynisson, Kristín Guðmundsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Þórður Már Jóhannesson.