Velferðarráðuneytið hefur sent Braga Guðbrandssyni bréf þar sem það áréttar að ákvörðun þess um að hann hafi sem forstjóri Barnaverndarstofu farið út fyrir verksvið sitt í tengslum við barnaverndarmál í Hafnarfirði sé felld úr gildi. Bréfið, sem ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri í ráðuneytinu skrifa undir, var sent 21. september.
Í bréfinu segir að „með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er það niðurstaða ráðuneytisins að misbrestur hafi verið á málsmeðferð ráðuneytisins sem leiddi til niðurstöðu þess 27. febrúar 2018, einkum að ekki hafi verið farið að grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um rannsókn mála og andmælarétt[...]Þá verður að mati ráðuneytisins eftir athugun á gögnum málsins og eðlis þeirra leiðbeininga sem þú sem forstjóri Barnaverndarstofu veittir og voru tilefni til aðfinnslu ráðuneytisins, ekki séð, að þú sem forstjóri stofnunarinnar hafi farið „út fyrir verksvið [þ]itt“ eins og það er orðað í framangreindu bréfi. Ekki verður heldur séð með vísan til gagna málsins, að upplýsingagjöf þín sem forstjóra stofnunarinnar til föðurafans í málinu, einkum í ljósi efnis umkvartana hans, hafi gefið ráðuneytinu tilefni til athugasemda.“
Ráðuneytið áréttar því fyrri niðurstöðu sína frá 29. júní 2018 um að ákvörðunin sé felld úr gildi.
Hægt er að lesa bréf ráðuneytisins til Braga hér í heild sinni.
Óháð úttekt
Í umfjöllun Stundarinnar í apríl kom fram að ástæða þess að ráðuneytið komst upprunalega að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði farið út fyrir valdsvið sitt hefði verið sú að hann hefði beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var ásakaður um kynferðisbrot gagnvart. Í kjölfar þess fréttaflutnings fór Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, fram á það við forsætisráðherra að fram færi óháð úttekt á störfum Braga.
Niðurstaða óháðrar úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun velferðarráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar var birt í byrjun júní síðastliðinn.
Í niðurstöðum úttektarinnar voru gerðar athugasemdir við að velferðarráðuneytið hafi fullyrt í bréfi sínu til Barnaverndarstofu og forstjóra hennar þann 27. febrúar síðastliðinn að forstjórinn hefði farið út fyrir verksvið sitt með því að beina málinu ekki til Embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari framkvæmdi úttektina með liðsinni Kristínar Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Í henni var farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, það er þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis.
Þá voru einnig gerðar athugasemdir við það að í úttektinni hafi ráðuneytið komist að niðurstöðu í máli forstjórans án þess að vera gefinn kostur á að kynna sér gögnin sem niðurstaðan var byggð á og veitt tækifæri til að tjá sig um þau.
Í úttektinni er jafnframt lýst efasemdum um að ráðuneytið hafi haft fullnægjandi stoð um aðfinnslu um forstjóra Barnaverndarstofu.
Árétting frá ritstjóra Kjarnans:
Í leiðara um málefni Braga Guðbrandssonar sem birtist í Kjarnanum 1. maí 2018 og skrifaður var af undirrituðum var gengið út frá því að þá fyrirliggjandi niðurstaða velferðarráðuneytisins um að Bragi hafi farið út fyrir starfssvið sitt væri rétt. Auk þess í leiðaranum stuðst við fréttaflutning Stundarinnar af umræddu máli, sem byggði á gögnum sem lágu til grundvallar niðurstöðu ráðuneytisins. Nú liggur fyrir að ráðuneytið hafi fellt þá ákvörðun úr gildi og því er sú fullyrðing sem sett var fram í leiðaranum að Bragi hafi farið út fyrir starfssvið sitt dregin til baka.
- Þsj