Allir sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða hafa verið sýknaðir af öllum ákæruliðum. Dómur í málinu var kveðinn upp rétt í þessu.
Fjölmenni var viðstatt dómsuppkvaðninguna í Hæstarétti í dag, sem var sýnd í beinni útsendingu, þvert á almennar reglur réttarins sem heimila ekki upptökur af dómhaldi, en undantekning var gerð í þessu tilviki.
Fyrirfram var búist við sýknudómi, enda krafðist ákæruvaldið sýknu í sínum málflutningi. Erfitt er að sjá hvernig rétturinn gæti sakfellt í málinu þar sem enginn gerir kröfu um sakfellingu. Mönnum greinir helst á í því hversu langt Hæstiréttur mun ganga í að lýsa yfir sakleysi ákærðu í dómsniðurstöðu sinni.
Endurupptökunefnd féllst í febrúar í fyrra á að dómur Hæstaréttar í málinu sem felldur var árið 1980 skyldi tekinn upp hvað varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hins vegar hafnað. Settur saksóknari í málinu, Davíð Þór Björgvinsson, við það tilefni að sakfelling í málinu hefði ekki verið studd við sönnunargögn sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum. Málflutningur fór fram fyrir tæpum hálfum mánuði.