Stór hluti af áfangaskýrslu starfshóps samgönguráðuneytisins um störf og starfshætti Samgöngustofu er svertur svo ekki er hægt að lesa hvað þar stendur.
Um er að ræða að mestu kafla hópsins um stjórnun stofnunarinnar, í yfirkafla sem nefnist „Helstu athugasemdir sem starfshópnum bárust“.
Í læsilegum hluta kaflans segir að mikilvægustu ábendingarnar sem starfshópnum hafi borist lúti að fjármögnun stofnunarinnar sem ekki hafi fengið að nýta til fulls tekjur sínar af þjónustugjöldum til að bregðast við stórauknum verkefnum, einkum vegna aukins innflutnings ökutækja. Einnig hafi athugasemdir beinst að áherslum í rekstri og stjórnun.
Sérstaklega er tekið fram að mikið álag sé á starfsfólki og starfsánægja takmörkuð af þeim sökum.
Kjarninn krafði samgönguráðuneytið um rökstuðning fyrir því af hverju svo stór hluti skýrslunnar sé gerður ólæsilegur. Ekki hafa borist svör að svo stöddu.
Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um starfshópinn og skýrsluna sem Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti í mars 2017 á stofn sem átti að vinna greiningu á verkefnum Samgöngustofu. Starfshópurinn skilaði af sér umræddri áfangaskýrslu í október á síðasta ári en síðan ekki söguna meir.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður og formaður starfshópsins að hópurinn hafi gert athugasemdir við ýmislegt í innri starfsemi og stjórnun Samgöngustofu. Öll þau atriði hafi verið tilgreind og rökstudd ítarlega en í kjölfarið hafi ráðuneytið ekki óskað eftir því að starfshópurinn legði af mörgum frekari vinnu.