Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir að óvíst væri að sómi hefði verið að því að afturkalla boð hans til Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins á hátíðarfundinn á Þingvöllum. Fyrir því væri engin „venja„ og ekkert dæmi finnist um að formlegt boð til erlends þingforseta eða sérstaks gests á vegum Alþingis hafi verið afturkallað.
Þetta kemur fram í svari Steingríms við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar þingmanns Pírata um aðdragandann að ávarpi Piu á hátíðarfundinum.
Jón spurði meðal annars hvenær Piu var formlega boðið, hver tók þá ákvörðun og hvenær og hvernig ákvörðunarferlinu var háttað. Í svarinu kemur fram að þegar hugmyndir um hátíðarfundinn hafi fyrst verið ræddar á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst árið 2017 hafi það verið kannað óformlega hjá skrifstofu danska þingsins hvort líklegt væri að forseti danska þingsins gæti þegið boð á hátíðarfund Alþingis og flutt ávarp á Þingvöllum. „Málið var til athugunar um nokkurt skeið og loks ákveðið að því yrði ráðið til lykta á fundi sem forseti Alþingis átti með forseta danska þingsins 20. apríl 2018, en sá tvíhliða fundur var haldinn í tengslum við ferð forseta og forsætisnefndar á Jónshátíð í Kaupmannahöfn (sumardaginn fyrsta). Boðsbréf á hátíðarfund Alþingis voru send 14. febrúar 2018 til erlenda gesta en nánari dagskrá ekki send að því sinni. Tilkynningu um að danski þingforsetinn mundi flytja ávarp á Þingvöllum var birt á vef Alþingis 20. apríl 2018 og með henni fylgdi mynd af þingforsetunum með sérstakan fullveldisfána á milli sín með íslenskri áletrun.“
Jón Þór spurði einnig hvenær og með hvaða hætti fulltrúar í forsætisnefnd og formenn þingflokka hafi verið upplýstir um að fyrirhugað væri að bjóða Piu á fundinn í krafti embættis hennar.
Steingrímur leggur einnig áherslu á í svari sínu að þegar þingforsetum erlendra ríkja er boðið í opinbera heimsókn, þeir sóttir heim eða önnur hefðbundin samskipti átt við þá er ekki spurt um stjórnmálaskoðanir viðkomandi einstaklings enda er boðið til þess sem er æðsti fulltrúi þjóðþingsins gangvart öðrum þingum. Gildir slíkt jafnt um smá sem stór ríki.