Orri Páll Dýrason, trommari hljómsveitarinnar Sigur Rós, er hættur í hljómsveitinni. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann setur inn á Facebook.
Þar greinir Orri Páll frá því að ástæða þess að hann taki þessa ákvörðun sé sú að bandarísk listakona ásakaði hann um nauðgun á Instagram síðu sinni í lok síðustu viku. Þar sagði hún að hið meinta kynferðisofbeldi hefði átt sér stað árið 2013. Orri Páll neitar ásökunum hennar.
Í stöðuuppfærslu hans segir meðal annars: „Vegna umfangs þessa máls hef ég ákveðið að hætta í Sigur Rós. Sú ákvörðun er mér þungbær, en ég get ekki látið þessar alvarlegu ásakanir hafa áhrif á hljómsveitina og það mikilvæga og fallega starf sem þar hefur verið unnið síðustu ár. Starf sem er mér svo kært.
Fram skal tekið að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að losa mig úr þessari martröð en af virðingu við raunverulega þolendur ofbeldis mun ég þó ekki taka þann slag opinberlega.“
Sigur Rós er ein þekktasta, ef ekki þekkasta hljómsveit landsins. Orri Páll hefur verið trommari sveitarinnar frá árinu 1999 og gekk því til liðs við hana skömmu eftir að hljómsveitin gaf út aðra plötu sína, Ágætis byrjun.
Hægt er að sjá stöðuuppfærslu Orra Páls í heild sinni hér að neðan:
Ég vil byrja á því að þakka vinum og vandamönnum sýndan stuðning. Það er gott að finna fyrir trausti ykkar þrátt fyrir...
Posted by Orri Pall Dyrason on Monday, October 1, 2018