365 miðlar hefur selt 10,92 prósent hlut sinn í Sýn sem félagið fékk þegar það seldi ljósvaka- og fjarskiptastarfsemi sína til Sýnar í lok síðasta árs. Söluverðið er um tveir milljarðar króna. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins en eigendur þess miðils eru 365 miðlar. Eigandi félagsins er Ingibjörg Pálmadóttir og félaginu er einnig stýrt af eiginmanni hennar, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Í frétt Fréttablaðsins segir að í 365 miðlar hafi í staðin keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum og greitt fyrir það tæplega 1,8 milljarða króna. Félög Ingibjargar áttu fyrir meira en tveggja prósenta hlut í Högum. Fréttablaðið segir að þau kaup hafi verið fjármögnuð af Kviku banka.
Þurfa ekki að selja Fréttablaðið lengur
Greint hefur verið frá því að undanförnu að Kvika banki sé að reyna að selja Fréttablaðið fyrir hönd hjónanna. Þetta er meðal annars vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti þegar eigendurnir seldu ofangreindir eignir til Sýnar í fyrra.
Nú er ljóst að 365 miðlar hefur selt hlut sinn í Sýn og getur þar með átt Fréttablaðið og tengda miðla áfram.
Hagar áður í eigu Baugsfjölskyldunnar
Hagar er stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Krúnudjásn félagsins eru Bónusverslanirnar, sem eru með stærstu markaðshlutdeild í dagvöru á Íslandi. Jón Ásgeir og faðir hans Jóhannes Jónsson stofnuðu Bónus árið 1989 en misstu Haga úr höndum eftir hrunið og gjaldþrot Baugs Group, fjárfestingafélags fjölskyldunnar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um endurkomu hjónanna inn í hluthafahóp Haga í fréttaskýringu fyrir tæpum tveimur árum síðan. Hana má lesa hér.