Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, segir að honum finnist sem niðurstöðurnar á ástæðum bankahrunsins sem settar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eldast vel.
„Mér finnst í tímans rás að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi staðist tímans tönn og margt sem þar er leitt fram fullkomlega standa enn þann dag í dag. Margt af því sem þar er skrifað fékk síðan endurlit eða speglun í þeim málum sem við rannsökuðum sem sakamál. Þannig að stærstu niðurstöður skýrslunnar finnst mér alveg fullgildar enn þann dag í dag. Það er hverjum og einum mjög holl lesning í umræðunni núna að taka sér eitt hefti í hönd og renna yfir niðurstöðurnar þar því þær eru býsna stöndugar.“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ólaf í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á miðvikudag þar sem þeir ræddu hrunið og afleiðingar þess í tilefni af því að áratugur er liðinn frá atburðunum afdrifaríku nú um stundir. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Veikt eigið fé og stórfellt útlán til eigenda
Meginniðurstöður rannsóknarnefndarinnar voru þær að orsök bankahrunsins væri vegna innlendra þátta. Eftirlitið hafi verið of losaralegt, stjórnmálamenn of værukærir og stóru bankarnir þrír: Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, farið allt of geyst. Þeir hefðu 20- faldast á stærð á sjö árum, sótt of hratt og áhættusamt inn á nýja markaði erlendis, að utanumhald og eftirlit með útlánum þeirra hefði ekki fylgt útlánavexti og að gæði útlánasafnsins hefði minnkað verulega við áður upp taldar aðstæður.
Þá hafi eigendur allra stóru bankanna þriggja fengið óeðlilegan aðgang að lánsfé hjá þessum sömu bönkum í krafti eignarhalds síns. Auk þess hefðu bankarnir þrír tekið umtalsverða áhættu vegna eigin hlutabréfa með því að lána fyrir kaupum á þeim með veðum í bréfunum. Það vr niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að veigamikil rök hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að „draga hefði átt lán, sem einvörðungu eru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis. Hið sama gildi um hluti sem voru að formi til skráðir í eigu þriðja aðila en „fyrir reikning“ viðkomandi fjármálafyrirtækis.“
Mun umfangsmeiri mál en reiknað var með
Aðspurður um hvað hafi komið honum mest á óvart þegar embætti sérstaks saksóknara fór að skoða hin svokölluðu hrunmál segir Ólafur að upphaflega hann og samstarfsfélagar hans talið að þeir myndu rekast á mál sem tengdust ástandinu sem skapaðist við hrunið, rétt fyrir það eða rétt eftir. Að um yrði að ræða mál þar sem einstaklingar reyndu að nýta sér tækifæri til þess að koma með ólögmætum hætti yfir fjármuni á ögurstundu. „En einhverra hluta vegna varð miklu meira um það að þessi mál voru að teygja sig mun lengra aftur í tímann. Og við vorum að eiga við háttsemi sem var fyrir vikið mun alvarlegri og mun fleiri sem tóku þátt í. Og var kannski mun skipulegri en við áttum von á til að byrja með.“