„Við erum ennþá að fremja efnahagsbrot og við erum ennþá að rannsaka slík brot. Í dag er það þó þannig að við erum með einingu eða starfsemi sem ræður við að rannsaka flókin efnahagsmál og hefur bæði mannskap og búnað til þess.“
Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og fyrrverandi sérstakur saksóknari, aðspurður um hvort að Íslendingar séu enn að fremja efnahagsbrot, eða hvort að embætti hans sé enn að takast á við brot af því tagi sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins.
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ólaf í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á miðvikudag þar sem þeir ræddu hrunið og afleiðingar þess í tilefni af því að áratugur er liðinn frá atburðunum afdrifaríku nú um stundir. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Málin sem embætti hans er að takast á í dag eru þó annars eðlis en þau sem það rannsakaði fyrstu árin eftir að embætti sérstaks saksóknara var sett á fót. Umfang þeirra sé mun minna en „trendin“ séu enn þau sömu.