Seðlabankinn í Kína hefur ákveðið að auka enn frekar við fjárinnspýtingu á innanlandsmarkaði, til að bregðast við tollastríðinu við Bandaríkin. Meðal þess sem gripið hefur verið til, er að liðka fyrir lánum banka og koma meira fjármagni í umferð, einkum til að styðja við vöxt og viðgang fyrirtækja, en þegar eru komin fram merki um að viðskiptastríðið við Bandaríkin - sem Donald Trump hefur nú gert að einu að grundvallarmálum sínum í efnahagsmálum - muni hafa mikil áhrif í Kína.
Bob Baur, aðalhagfræðingur PGI (Principal Global Investing), lét hafa eftir sér í viðtali við Bloomberg um helgina, að Kínverjar væru nú að reyna að halda vöxtum frekar í lægri kantinum, miðað við alþjóðlegt samhengi, og beita fjárinnspýtingu inn á markaðinn, til að örva hagkerfið heima fyrir. Hann sagði að þetta væri samt erfið staða fyrir Kína, þar sem miklar skuldir heima fyrir, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum, væru áhyggjuefni og of mikil örvun fyrir hagkerfið gæti skapað vandamál.
Óhætt er að segja að mikill uppgangur hafi verið í kínverska hagkerfinu á undanförnum tveimur áratugum. Hagvöxtur hefur verið á bilinu 6 til 10 prósent á ári, í tvo áratugi. Í fyrra var hagvöxturinn 6,9 prósent.
China is working to remove President Donald Trump from office, Mike Pence warns https://t.co/QDwOlbfhIM pic.twitter.com/rbQcYY89O8
— Newsweek (@Newsweek) October 4, 2018
Ríkisstjórn Trumps hefur nú þegar komið á tollum sem beinast að innflutningi frá Kína, upp á 250 milljarða Bandaríkjadala. Segja má að viðskiptastríðið sem Trump hóf sé nú komið á næsta stig, þar sem tollarnir - meðal annars 10 til 25 prósent tollar á málminnflutning - eru farnir að hafa mikil áhrif á gang efnahagsmála í heiminum.
Efnahagsstríð Bandaríkjanna og Kínverja er líka sífellt að magnast upp á hinu pólitíska sviði. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir Kínverja vera að reyna að losa sig við Trump úr embætti forseta, meðal annars með skipulögðum tölvuárásum í aðdraganda kosninga í nóvember (mid term election). Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sagði Trump sjálfur að Kínverjar væru að beita sér gegn Bandaríkjunum, og það yrði ekki liðið.