Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í hádeginu frumvarp breytingar á lögum um rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrir fiskeldi.
Þetta frumvarp er lagt fram eftir að Úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismál felldi úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember síðastliðnum um að veita Fjarðarlax ehf. rekstrarleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.
Forsvarsmenn Vesturbyggðar og Tálknafjarðar funduðu með forystumönnum ríkisstjórnarflokkana síðastliðinn laugardag og gerðu þeim grein fyrir alvarleika málsins. Sveitarfélögin tvö eru með tæplega 1300 íbúa og talið er að um 165 íbúar vinni fyrir fyrirtækin á svæðinu beint auk fjölda verktaka og þjónustufyrirtækja sem tengjast fiskeldi. Talið er að ef ekki er brugðist við strax við að leysa úr þessum vanda þá er ljóst að þetta mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
Um helgina lýstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar áhyggjum af úrskurði nefndarinnar. „Við upplýstum þau um að sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra hafa verið með til skoðunar hvaða leiðir eru færar til þess að gæta meðalhófs í þessu máli og öðrum, þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum. Það er von mín að farsæl lausn finnist á þessu máli sem allra fyrst.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna, meðal annars á Facebook-síðu sinni í gær.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins greindi meðal annars frá því á laugardag að óvissan sem skapaðist á Vestfjörðum í kjölfar úrskurðarins væri með öllu óviðunandi. „Hér verður að bregðast hratt við og svara því með hvaða hætti þeim sem í hlut eiga verði tryggður réttur til að láta reyna á stöðu sína gagnvart stjórnvöldum,“ sagði hann og að tryggja yrði að sanngjarnar reglur giltu um rétt til að bæta úr ágöllum í leyfisumsóknarferli, ef slíku væri til að dreifa, í þessu máli og til frambúðar.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins kallaði eftir lausnum og rifjaði upp á Facebook-síðu sinni í gær hvernig viðvarandi fólksfækkun á sunnanverðum Vestfjörðum til ársins 2012 hefði snúist við vegna uppbyggingar fiskeldis. Sömuleiðis hefði íbúaþróun snúist við á norðanverðum Vestfjörðum í fyrra vegna fiskeldis. Hann sagði að yfir 300 störf tengdust fiskeldinu fyrir vestan. Auk þess störfuðu tugir í Ölfusi/Þorlákshöfn. Þá hefði fiskeldi haft jákvæð áhrif á byggðaþróun á sunnanverðum Austfjörðum.
„Mikilvægi fiskeldis í uppbyggingu byggðanna fyrir vestan og austan er staðreynd og ætti ekki að vera ágreiningsmál. Það má því vera öllum ljóst að finna þarf skynsamlegar lausnir á núverandi stöðu,“ skrifaði Sigurður Ingi.
Náttúrverndarsamtök og veiðiréttarhafar hafa hins vegar varað við því að hróflað yrði við niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar, segir í frétt RÚV í dag.