Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að SS-sveitir sérfræðinga að sunnan komi í veg fyrir að atvinnulíf, samgöngur og virkjanir fái að rísa á Vestfjörðum.
Þetta sagði Ásmundur í umræðum um Fiskeldi sem nú standa yfir á Alþingi. „Ég held að við þurfum að taka Vestfirðinga og Vestfirði í faðminn og hjálpa þeim í gegnum þennan ólgusjó sem þeir eru í núna. Það er okkar hlutverk. Ræðum það sem við þurfum að gera til að hjálpa þeim til. Veitum ráðherranum þessa heimild, frestum þessum réttaráhrifum, gerum það sem fyrst, stöndum vel að því og síðan munum við’ örugglega hafa almennt um fiskeldi.“
SS-sveitirnar voru öryggis- og hersveitir þýska Nasistaflokksins sem stofnaðar voru á þriðja áratugnum og voru starfræktar fram til ársins 1945. Þær voru þekktar fyrir mikla grimmd í garð óbreyttra borgara og stríðsfanga og báru ábyrgð á feikilegu mannfalli á meðan að á seinni heimsstyrjöldinni stóð.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata gerði athugasemd við orðalag Ásmundar og að hann notaði líkindi við sérsveitir nasista í máli sínu við umræður á Alþingi. Ásmundur sagði að hann hafi ekki ætlað að nota slík líkindi, heldur hafi SS staðið fyrir sérfræðinga að sunnan.
Verið að ræða bráðabirgðaheimild ráðherra
Nú standa yfir umræður á Alþingi um nýtt frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en samkvæmt því mun verða mögulegt að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrir fiskeldi, og féllu ummæli Ásmundar í þeim umræðum.
Frumvarpið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær en í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að því sé ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum sé eina úrræði Matvælastofnunar, í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi, að stöðva starfsemi hennar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og vísaði einnig frá beiðni fyrirtækja um frestun réttaráhrifa. Samtals voru leyfin upp á um 17.500 tonn en sveitarfélögin á starfssvæði fyrirtækjanna hafa mótmælt stöðunni sem komin er upp og krafist aðgerða.
Drög að frumvarpinu voru sem sagt samþykkt á aukafundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu í gær og kynnt hinum stjórnmálaflokkunum síðdegis í gær. Fyrirtækjunum Arctic Fish og Fjarðalaxi er því gefinn frestur til að fara yfir umhverfismat fyrirtækjanna til að tryggja að umsókn þeirra um aukið laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum verði samkvæmt lögum og reglum. Aðspurður segir Kristján Þór frumvarpið ekki fara á svig við úrskurð nefndarinnar um að fella starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna tveggja úr gildi. Hann segir þá ákvörðun vera sjálfstæða og frumvarpið ekki snerta hennar úrskurð. Frumvarpið flýti einfaldlega fyrir ferli málsins en bið eftir úrskurði dómstóla væri bæði kostnaðarsöm og tímafrek.