Gjaldþrot íslenska flugfélagsins WOW air hefði getað leitt til þess að landsframleiðsla drægist saman um tvö til þrjú prósent og gengi krónunnar veiktist um allt að 13 prósent á næsta ári. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna sviðsmyndagreiningar sem stjórnvöld unnu í lok sumars vegna mögulegra áfalla í rekstri flugfélagsins. Starfshópur sem var skipaður fulltrúum frá fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu og Seðlabankanum vann sviðsmyndagreininguna. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag.
Í grunnsviðsmynd greiningarinnar var niðurstaðan sú að ef WOW air hefði fallið þá hefði útflutningur getað dregist saman um tíu prósent á næsta ári, verðbólga hækkaði á sama ári um þrjú prósentustig og færi þannig upp í hátt í sex prósent og um 1.400 manns bættust á atvinnuleysisskrá. Til samanburðar voru ríflega 4.500 manns atvinnulausir hér á landi í lok ágústmánaðar og Hagstofa Íslands og Seðlabankinn spá 2,7 prósenta hagvexti á næsta ári og að gengi krónunnar haldist á sama tíma stöðugt.
Þann 13. júlí síðastliðinn sendi WOW air frá sér tilkynningu um að félagið hefði tapað um 2,4 milljörðum króna á árinu 2017. Þar var einnig sagt að eiginfjárhlutfall WOW air hefði verið 10,9 prósent um áramót. Allar viðvörunarbjöllur fóru á fullt, sérstaklega í ljósi þess að fyrir lá hversu mikið erfiðari aðstæður væru orðnar á árinu 2018. Ljóst var þó að stjórnvöld höfðu áhyggjur og frá því í vor hafa þau fylgst mjög náið með stöðu félagsins, og óformleg samstaða er um það að það verði að grípa inn í riði WOW air til falls. Þar sem félagið flytur 37 prósent allra farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll yrðu áhrifin á Ísland í heild svo mikið að það megi einfaldlega ekki gerast. Þar er sérstaklega horft á áhrifin á greiðslujöfnuð.
Í umfjöllun Markaðarins kemur fram að samhliða vinnu starfshópsins unnu fulltrúar fjögurra ráðuneyta að gerð sérstakrar viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegra áfalla sem upp gætu komið í rekstri fyrirtækja sem talin eru kerfislega mikilvæg, þar með talið flugfélaganna Icelandair og WOW air. Fram kemur í fundargerð fjármálastöðugleikaráðs, sem ræddi meðal annars stöðu íslensku flugfélaganna á fundi sínum síðasta föstudag, að það sé mat ráðsins að möguleg áföll í fluggeiranum myndu ekki ógna fjármálastöðugleika.
Sumir sérfræðingar sem starfshópurinn kvaddi til hafa hinsvegar gagnrýndu sviðsmyndagreininguna á þeirri forsendu að hún vanmæti möguleg keðjuverkandi áhrif af gjaldþroti WOW air, samkvæmt heimildum Markaðarins
Tryggði sér fjármögnun með skuldabréfauppboði
WOW air tryggði sér fjármögnun upp á samtals 60 milljónir evra, sem jafngildir 7,9 milljörðum króna, í skuldabréfaútboðinu sem lauk um miðjan síðasta mánuð. Skúli Mogensen er forstjóri og eini hluthafi flugfélagsins en þátttakendur í uppboðinu voru bæði erlendir og innlendir fjárfestar. Samkvæmt fjárfestakynningu WOW air, sem útbúin var í aðdraganda skuldabréfaútboðs flugfélagsins í sumar, veitti Arion banki félaginu sex milljóna evra lán á haustmánuðum síðasta árs. Lánið, sem ber 4,3 prósenta vexti og er á gjalddaga í september 2020, er eina bankalán WOW air en fyrir utan lánið er nýleg skuldabréfaútgáfa félagsins eina lengri tíma markaðsfjármögnun þess. Frá þessu er greint í umfjöllun Markaðarins.
Rekstarumhverfi flugfélaga um allan heim hefur versnað til muna undanfarið, einkum vegna mikillar samkeppni og hækkandi olíuverðs. Verð á flugvéleldsneyti hækkaði um 36 prósent á fyrri hluta árs og og gera má ráð fyrir að verð á olíu haldi áfram að hækka út árið. Í fjárfestakynningu félagsins er upplýst um að eins prósents hækkun á verði á flugeldsneyti hafi neikvæð áhrif á afkomu félagsins að fjárhæð 1,6 milljónir dala, jafnvirði 184 milljóna króna. Ólíkt Icelandair og helstu keppinautum þeirra í Evrópu ver WOW air ekki eldsneytiskaup sín fyrir sveiflum í olíuverði.