Fyrirtækið Boston Dynamics hefur á undanförnum árum leitt þróun á vélmennum, meðal annars í samstarfi við Bandaríkjaher. Nýjasta vélmennið frá fyrirtækinu hleypur um eins og maður og getur haldið jafnvægi með hoppum á öðrum fæti, upp á kassa. Það sem kemur upp í hugann, þegar horft er á myndbandið, sem tæknivefurinn TechCrunch frumbirti, er að þarna sé maður á ferðinni, frekar en vélmenni.
Boston Dynamics var stofnað sem fyrirtækið árið 1992, en varð til á tilraunastofum MIT háskólans í Boston. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í þróun gervigreindar og jafnvægisbúnaðar í vélmennum, en hin síðari ár hefur það þróað vélmenni sem meðal annars eru þjálfuð til að bera miklar þyngdir og hjálpa til við hin ýmsu verk sem menn hafa unnið í gegnum tíðina.
Japanska fyrirtækið SoftBank á fyrirtækið núna eftir að hafa keypt það frá Google. Bandaríkjaher gerði samning við fyrirtækið árið 2009, og hefur síðan unnið að þróun vélmenna sem geta gagnast við hin ýmsu verkefni sem Bandaríkjaher sinnir.