Stjórn Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum krefst þess að fyrirkomulag útleigu á félagslegu húsnæði í Reykjavík verði endurskoðuð; starfsaðferðum breytt, viðmót lagað og að leigjendur hjá Félagsbústöðum og samtök þeirra verði höfð með í ráðum við þá endurskoðun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum.
Stjórnin gagnrýnir Félagsbústaði fyrir að hegða sér eins og leigufélag á almennum markaði og segir það hlutverk Félagsbústaða að vera skjól fyrir þau sem ekki geta leigt á hinum svokallaða almenna markaði. Í yfirlýsingunni kemur fram að léleg fjármálastjórn Félagsbústaða sé aðeins eitt merki um vondan rekstur. „Það er mat stjórnar Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum að vonda fjármálastjórn, jafnt sem lélega þjónustu við leigjendur og slæmt viðmót, megi rekja til þess að Félagsbústaðir voru ekki stofnaðir til að halda utan um góða félagslega þjónustu heldur til að verða eins og hvert annað leigufyriræki á markaði, samskonar fyrirtæki og þeir leigjendur sem sækja um félagslegt húsnæði á vegum borgarinnar eru að flýja,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórn Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum segist fagna því að stefnt sé að endurskoða rekstur félagsins og framkomu þess gagnvart leigjendum en segir ljóst að róttækra aðgerða sé þörf til að byggja upp traust milli leigjenda félagslegs húsnæðis í Reykjavík og borgarinnar og stofnana hennar.
„Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum krefst þess að leigjendur félagslegs húsnæðis á vegum Reykjavíkur komi að endurskoðun kerfisins og að leigjendur verði í framtíðinni hluti af stjórnum þeirra félaga sem leigi út félagslegt húsnæði Reykjavíkurborgar. Aðeins með þeim hætti verður tryggt að Félagsbústaðir haldi tryggð við erindi sitt, sem er fyrst og fremst að tryggja sem flestum borgarbúa öruggt og ódýrt húsnæði og góðan valkost við hinn grimma óbeislaða húsnæðismarkað.“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Félagsbústaðir endurskoða starfsemi sína
Í fréttatilkynningu frá Félagsbústöðum sem send var út í gær kom fram að stjórn Félagsbústaða hefði ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á starfsemi og innra eftirliti félagsins í kjölfar úttektar sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á 53 íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík.
Skýrsla Innri endurskoðunar á viðhaldsverkefni Félagsbústaða við Írabakka 2-16 á árunum 2012 til 2016 var nýlega kynnt fyrir stjórn og komu þar fram alvarlegar athugasemdir við stjórnarhætti í tengslum við umrætt verkefni. Úttektin leiddi í ljós að framkvæmdir á Írabakka fóru 330 milljónir króna umfram þær heimildir sem stjórnin veitti á framkvæmdatímanum. Heildarkostnaðurinn nam 728 milljónum króna sem þýðir að framkvæmdin fól í sér 83 prósent framúrkeyrslu. Úttektin leiddi í ljós að skerpa þurfi á verkferlum og setti Innri endurskoðun Reykjavíkur fram margvíslegar ábendingar um hvernig bæta megi innra eftirlit Félagsbústaða.
Í tilkynningunni kom fram að stjórn Félagsbústaða teldi ábendingar Innri endurskoðunar gagnlegar og hefur stjórnin samþykkt að vinna að úrbótum í samræmi við þær.