Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, segir að búið hafi verið að samþykkja framúrkeyrslu vegna endurbyggingu braggans við Nauthólsveg 100 að hluta til. Í verkstöðuskýrslu sem birtist um áramótin 2017 til 2018 var greint frá því að búið hafi verið að eyða 250 milljónum í verkefnið. 120 milljónum var eytt án heimilda og segist Hrólfur taka þau mistök á sig. Þetta kemur fram í frétt RÚV en hann var í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
Hann segir jafnframt ástæðu þess að verkið hafi orðið dýrara liggja í mörgum þáttum. Þau mistök hafi verið gerð á sinni skrifstofu að ekki hafi farið inn tala í fjárfestingaáætlun um að það yrði að eyða meira peningum í framkvæmdina.
Hrólfur segir kjörna fulltrúa ekki hafa vitað um rétta stöðu mála fyrr en í ágúst þegar fjármálahópur lagði hana fram fyrir borgarstjórn. Þá var komin heildarendurskoðun á fjárfestingaáætluninni. „Þetta gerist ekki í einni ákvörðun. Þegar þú horfir á svona mál eftir á þá hefurðu allar upplýsingar. Þarna eru mörg atriði sem hafa áhrif á það að þetta fer framúr,“ segir hann.
„Það liggja fyrir allar fundargerðir frá verkfundum, það liggja fyrir allir reikningar, þannig að það verður hægt að rekja þetta mál algjörlega,“ segir Hrólfur og bætir því við að það verði að læra af málinu.
Hann segir í samtalinu að óvissa hafi legið fyrir um kostnað við braggann, eins og alltaf þegar verið sé að gera upp gömul hús. Þegar áætlunin hafi verið gerð hafi ekki legið fyrir hvernig ætti að nota húsið. Hann leggur þó áherslu á að mistök hafi verið gerð þegar ákveðnum hluta af framúrkeyrslunni hafi verið eytt án þess að heimild hafi verið fyrir því.
„Hjá Reykjavíkurborg er fjármálahópur. Ég sit í þeim fjármálahóp ásamt fjármálastjóranum, þar er farið yfir svona hluti. Þessi framkvæmd fór ekki þar inn, það voru bara mistök,“ segir hann.