Tveir hafa lýst yfir framboði til embættis formanns BSRB, en kosið verður til embættisins á þingi BSRB morgun, en það eru Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Vésteinn Valgarðsson, stuðningsfulltrúi á Kleppi.
Elín Björg Jónsdóttir, fráfarandi formaður BSRB, tilkynnti í byrjun sumars að hún muni ekki gefa kost á sér áfram.
Kosið verður um nýjan formann BSRB á 45. þingi bandalagsins, sem fer fram á Hilton hótel Nordica, föstudaginn 19. október klukkan 14.
Sonja Ýr og Vésteinn gera bæði grein fyrir ástæðum þess að þau bjóða sig fram, á vef BSRB.
Þar segir Sonja Ýr að mikilvægasta verkefnið sé að auka velferð félagsmanna. „BSRB hefur lengi barist fyrir hagsmunum launafólks og náð miklum árangri í baráttunni fyrir auknum lífsgæðum en hlutverk bandalagsins hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi ríkt góðæri á landinu hefur það ekki skilað sér með sama hætti til allra og síst til þeirra tekjulægstu. Afleiðingin er aukin misskipting í samfélaginu og við því verður að bregðast. Mikilvægasta verkefni bandalagsins er að auka velferð okkar allra, stuðla að auknu jafnrétti og tryggja það að allir geti lifað á launum sínum,“ segir Sonja Ýr meðal annars.
Vésteinn segir í pistli á vef BSRB að hann líti á sig sem frambjóðanda grasrótarinnar. „Ég er sósíalisti og sem slíkur veit ég, og þið vonandi öll, að saga framfara fyrir vinnandi fólk er saga stéttabaráttu, hvort sem það eru kaup og kjör, mannréttindi eða lýðræði. Saga baráttunnar er saga sigranna. Við búum í ranglátu þjóðfélagskerfi og á meðan svo er, þurfum við samtakamáttinn í stöðugri baráttu fyrir félagslegu réttlæti, ef við viljum njóta góðra lífskjara fyrir okkur og börnin okkar. Bæði varnarbaráttu og sóknarbaráttu,“ segir Vésteinn.