Heimili í Danmörku þarf að bera rúmlega þrefalt meiri kostnað fyrir notkun kalda vatnsins á ári hverju en á Íslandi. Ódýrast er að nota kalt vatn á Íslandi af Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í árlegri samantekt Samorku um kaldavatnsnotkun þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum Norðurlandanna.
Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er kostnaður í Danmörku á ári tæplega 78 þúsund krónur, sem er langmesti kostnaðurinn á Norðurlöndunum. Skattar og gjöld hækka þessa tölu mikið en jafnvel án þeirra kostar kalda vatnið mest þar. Finnsk heimili greiða um 45 þúsund á hverju ári og svipað er að segja um heimili í Noregi, sem greiða um 42 þúsund. Minnst er rukkað fyrir þessa þjónustu í Svíþjóð og á Íslandi. Í Svíþjóð má búast við að greiða rúmlega 25 þúsund krónur árlega fyrir notkun á köldu vatni en á Íslandi 24 þúsund, eða tvö þúsund krónur á mánuði, segir í frétt Samorku.