„Ég finn mig knúna til að bregðast við leiðara Fréttablaðsins, “Stærsta ógnin”, sem birtist á föstudaginn var. Þó langar mig það ekkert. Mér langar ekki að virða fólk sem beitir hiklaust hótunum viðlits. En því miður er svo komið fyrir talsmönnum óbreytts ástands að þeir hika ekki við reyna að kúga vinnandi fólk til hlýðni með sjúkri og viðbjóðslegri orðræðu og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að sýna að í mér rennur blóð...“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, í Facebook-pistli í gær um leiðara Harðar Ægissonar, ritstjóra Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins.
Leiðari Harðar var birtur síðastliðinn föstudag og bar yfirskriftina „Stærsta ógnin“. Í leiðaranum gagnrýnir Hörður kröfur Starfsgreinasambands Ísland og VR í komandi kjaraviðræðum. „Forystumenn helstu verkalýðsfélaga landsins, sem öllum má nú vera ljóst að eru stærsta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks á komandi árum, eru á öðru máli,“ skrifar Hörður.
Heimsendir frekar en réttlæti
Sólveig Anna gagnrýnir leiðarinn harðlega í Facebook-færslu sinni og segir Hörð bókstaflega ganga af göflunum í leiðaranum. „Fyrirlitningin og andúðin á verkafólki og þeim sem strita fyrir lægstu launin sem frussast á okkur af síðum Fréttablaðsins er með ólíkindum...“ skrifar Sólveig
Hún segir að tilgangurinn með skrifum Harðar sé að „skelfa fólk til hlýðni og að búa til tækifæri fyrir hófstilltari og jarðbundnari talsmenn arðránsins til að stíga fram sem málsvara skynsemi og stöðugleika.“
Sólveig Anna túlkar skrif Harðar á þá leið að hann sé að stilla sjálfum sér upp sem rödd skynseminnar „en það er ekki hægt að segja annað en að móðursýkiskenndir heimsendaspádómar hans einkennist af alveg hreint einstakri vanstillingu“. Hún segir að slagorð „Heimsenda-Harðar“ hljóta að vera „heimsendir frekar en réttlæti“.
Vill frekar að reiknað sé hvað kostar að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti
Hörður segir í leiðara sínum að kröfur verkalýðsfélaganna verði ekki lýst öðruvísi en sem „sturluðum“ og „í engum takti við efnahagslegan veruleika“. Sólveig svarar því og segir hins vegar að sé löngu tímabært að viðurkenna að hinn efnahagslegi veruleiki sem láglaunafólk býr við sé sturlaðar
„Hörður kallar eftir því að verkalýðshreyfingin leggi mat á kostnaðinn við kröfurnar en hvernig væri nú að Hörður og aðrar málpípur auðvaldsins legðu mat á kostnaðinn sem felst í því að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti? Væri það ekki hressandi tilbreyting?“ spyr Sólveig.
Hún varpar fram spurningum í pistlinum og biður fólk að svara af heiðarleika.
„Er það byltingarkennt að fólk megi lifa af ráðstöfunartekjum sínum? Er það byltingarkennt að fólk geti látið það duga að vera í einni vinnu? Er það byltingarkennt að fólk hafi aðgang að öruggu húsnæði á eðlilegum kjörum? Er það byltingarkennt að fólkið sem hefur minnst á milli handanna verði ekki lengur látið bera þyngstu skatt-byrgðarnar? Er það byltingarkennt að fjármagnseigendur verði látnir axla samfélagslega ábyrgð með því að greiða eðlilega skattprósentu af auðæfum sínum?“
„Og ef svarið er já, þetta er byltingarkennt þá kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa,“ skrifar Sólveig Anna.
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Sunday, October 21, 2018