Íslenska ríkið þarf að greiða Jóni Höskuldssyni og Eiríki Jónssyni bætur vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði dómara í Landsrétt. Jón og Eiríkur voru á meðal þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði talið á meðal 15 hæfustu til að starfa í réttinum en Sigríður vék til hliðar. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jóni fjórar milljónir króna í skaðabætur, 1,1 milljón króna í miskabætur auk þess sem ríkið greiðir 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Dómurinn féllst á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki en hann mun þurfa að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Ríkið greiðir 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Aðalmeðferð málanna tveggja fór fram í september. Vitnaleiðslur í þeim fóru fram samhliða í ljósi þessi að sömu vitni voru kölluð fyrir.
Á meðal þeirra sem báru vitni í málinu voru. núverandi og fyrrverandi þingmenn Viðreisnar, sem sat á þessum tíma í ríkisstjórn. Málflutningur í máli Eiríks, sem er lagaprófessor við Háskóla Íslands og deildarforseti lagadeildar, fór síðan fram í gær, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.
Braut gegn ákvæðum stjórnsýslulaga
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem urðu báðir af dómarasæti í Landsrétti vegna ákvörðunar Sigríðar, stefndu ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að fara gegn áliti dómnefndarinnar.
Þeir eru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“. Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón. Íslenska ríkinu var hins vegar gert að greiða þeim miskabætur.
Tveir aðrir stefndu
Tveir aðrir menn sem voru á lista dómnefndar yfir þá sem átti að skipa dómara höfðuðu ekki slík mál. Annar þeirra, Jón Höskuldsson héraðsdómari, sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og í kjölfarið höfðaði Jón það mál sem dæmt var í í dag.
Jón krafðist þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krafðist þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna.
Eiríkur ákvað að fylgja í fótspor Jóns snemma á þessu ári og stefndi ríkinu. Hann er fæddur árið 1977 og er því rúmlega fertugur að aldri. Eiríkur átti því um 27 ár eftir á vinnumarkaði þegar skipað var í Landsrétt miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur.