Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félagsmálaráðherra, segir Sigríði Andersen hætta sér út á hálan ís með fullyrðingum um að launamunur kynjanna sé innan við fimm prósent. Þó það sé rétt hjá henni að líta verði til ýmissa þátta þurfi líka að hafa í huga að þeir séu margir hverfir fjarri því að vera málefnalegir eða merki um jafnrétti á vinnumarkaði.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sagði í færslu á Facebook-síðu sinni í gær að ályktun um launamun kynjanna sem fjallað var um í dag af tilefni kvennafrídagsins sé beinlínis röng. Hún segir að launamunur kynjanna sé í raun um 5 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar ef tekið er tillit til ýmissa þátta á borð við vinnu, vinnutíma, menntun, reynslu eða mannaforráða. „Þessi kynbundni munur gefur þó ekki tilefni til að álykta nokkuð um kynbundið misrétti. Launakannanir eru of takmarkaðar í eðli sínu til þess að slá nokkru föstu um það,“ segir dómsmálaráðherra
Að lokum segir Sigríður í færslu sinni „Á degi sem þessum er ánægjulegt að líta til þess árangurs sem konur og karlar hafa náð í jafnréttisbaráttu ýmiss konar,“ segir Sigríður enn fremur. „Það er mikilvæg forsenda framfara í þeim efnum að umræða sé málefnaleg og fyrirliggjandi gögn ekki mistúlkuð. Að lokum bendi ég á að í nefndri skýrslu velferðarráðuneytis kemur fram að ungar konur hjá hinu opinbera séu með hærri tekjur en karlar á sama aldri. Þær mæta væntanlega aðeins fyrr til vinnu í fyrramálið!“
Bendir á glerþakið og verr launaðar kvennastéttir
Þorsteinn svarar færslu Sigríðar á Facebook-síðu sinni að í launakönnun Hagstofunnar sem Sigríður vísar til sé meðal annars tekið tillit til mannaforráða og ábyrgðar. Það sé nokkuð stór skýribreyta, en konur séu um fimmtungur stjórnenda á vinnumarkaði. Það sé ekki vegna lakari menntunar eða skorts á metnaði, heldur vegna þess að þær búi við lakari framgang í starfi en karlar. Það sé það sem kallað er glerþak og sá launamunur sem af þessu stafi sé einmitt merki um skort á jafnrétti á vinnumarkaði en ekki öfugt. Þorsteinn bendir einnig á að í sömu launakönnun sé tekið tillit til sambúðarstöðu og barnafjölda. Það hefur jákvæð áhrif á laun karla að vera í sambúð eða giftir og að eiga börn, en lítil sem engin og jafnvel neikvæð áhrif á laun kvenna. „Held við hljótum flest hver að vera sammála um að það sé ekkert málefnalegt við þetta," segir Þorsteinn á Facebook.
Þá segir Þorsteinn að ekkert tillit sé tekið til mats fólks á verðmæti starfa. „Dæmigerðar kvennastéttir, svo sem kennarar, hjúkrunarfræðingar ofl. eru t.d. að jafnaði mun verr launaðar stéttir en fjölmennar karlastéttir með sambærilega lengd menntunar og ábyrgð. Við getum alveg velt fyrir okkur hvort það sé t.d. verðmætara fyrir samfélag að miðla fjármagni (bankastarfsmenn) eða þekkingu (kennarar). Mikill launamunur þarna á en sennilega ættum við fáa vel menntaða starfsmenn í fjármálageiranum án góðra kennara," segir Þorsteinn.
Að lokum segir Þorsteinn að það sé algjör óþarfi fyrir konur að mæta aðeins fyrr í vinnuna í dag, og svarar þar orðum Sigríðar um að konur í opinbera geiranum hljóti að mæta fyrr til vinnu í dag þar sem þær séu hærra launaðar en karlar. Þorsteinn segir konur löngu búnar að vinna fyrir þessum klukkustundum á hverjum degi.
Það verður að segja eins og er að hér hættir Sigríður Andersen sér út á hálan ís. Þó svo vissulega sé það rétt hjá henni...
Posted by Þorsteinn Viglundsson on Wednesday, October 24, 2018