Óheimilt verður að ráða til starfa hjá aðilum sem sinna íþróttastarfi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á sérstökum ákvæðum almennra hegningarlaga. Sama gildi um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum.
Ákvæðið mun einnig ná til þeirra sem falin er umsjón með íþróttastarfi á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
Þetta kemur fram í nýjum drögum að frumvarpi til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra setur drögin fram og eru þau nú komið í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 29. október næstkomandi.
Við ráðningu til starfa hjá þeim aðilum sem falla undir lög skal ávallt liggja fyrir sakavottorð og upplýsingar úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Á þetta við hvort sem einstaklingur hyggst taka að sér launað starf eða sjálfboðaliðastarf, eins og fyrr segir.
Íþrótta- og æskulýðsstarf skuli fara fram í öruggu umhverfi
Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til skipulagðrar starfsemi á vegum Íþrótta- og Ólympíusambandsins, Ungmennafélags Íslands, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við það ráðuneyti sem fer með íþrótta- og æskulýðsmál um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi.
Í drögunum kemur fram að markmið laganna sé að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.
Setja á fót starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs
Ráðherra setur á fót starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til fimm ára í senn. Eftir 1. janúar 2023 getur ráðherra lagt niður starfsamskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs að fenginni umsögn hagsmunaaðila. Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs skal hafa háskólamenntun og þekkingu sem nýtist í starfi.
Frumvarpið er unnið í mennta- og menningarráðuneyti á grundvelli vinnu starfshóps sem skipaður var þann 19. mars síðastliðinn í kjölfar yfirlýsinga íþróttakvenna undir myllumerkinu #metoo ásamt frásögnum þeirra.
Brýnt að starfinu verði komið á fót með lögum
Starfshópinn skipuðu Óskar Þór Ármannsson, sem var jafnframt formaður, Valgerður Þórunn Bjarnadóttir, Elísabet Pétursdóttir, Jóna Pálsdóttir og Guðni Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Auður Inga Þorsteinsdóttir frá Ungmennafélagi Íslands, Heiðrún Janusardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir frá #metoo-hreyfingu íþróttakvenna.
Starfshópnum var ætlað að gera tillögur um aðgerðir, meðal annars með því að skoða þá verkferla sem gilda og gera tillögur til úrbóta þar sem þess er þörf. Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði til starfs sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi þeirra sem taka þátt í starfi þeirra samtaka og félaga sem frumvarp þetta nær til.
Að mati starfshópsins er afar brýnt að starfinu verði komið á fót með lögum en það er forsenda þess að meginmarkmiði frumvarpsins verði náð. Í þessu samhengi ber að nefna að frumvarpið veitir samskiptafulltrúanum heimild til krefja þá sem skipuleggja eða bera ábyrgð á íþrótta- og æskulýðsstarfi um allar þær upplýsingar sem hann metur nauðsynlegar til að sinna hlutverki sínu og er viðkomandi aðilum þá skylt að afhenda honum umbeðnar upplýsingar, óháð þagnarskyldu viðkomandi aðila.
Hundruð kvenna skrifuðu undir #metoo-yfirlýsingu
Íþróttakonur sendu frá sér yfirlýsingu í janúar síðastliðnum vegna #metoo þar sem kom fram að þær sættu sig ekki við þá mismunun, ofbeldi og áreitni sem hefur viðgengist á vettvangi íþrótta fram til þessa. Meðal þess sem fram kom í yfirlýsingunni var að konum yrði gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það kæmi niður á framtíðarmöguleikum þeirra innan íþróttarinnar og að á þær yrði hlustað, staðið með þeim og þeim trúað.
Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 íþróttakonur. Samhliða yfirlýsingunni og undirskriftum sendu íþróttakonurnar frá sér 62 frásagnir sem lýstu margskonar ofbeldi, áreitni, mismunum, niðurlægingum og annarskonar misrétti sem þær höfðu orðið fyrir innan íþrótta. Frásagnirnar vöktu upp mikil viðbrögð í samfélaginu þar sem að alvarleiki frásagnanna var í mörgum tilvikum mikill. Mörg atvikin áttu sér stað þegar konurnar voru undir 18 ára aldri ásamt því sem í sumum tilvikum var um brot að ræða sem eru refsiverð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.