Þrýstihópurinn Stopp, hingað og ekki lengra hyggst grípa til aðgerða í mótmælaskyni við hægagangi við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Hópurinn hefur lengi bent á hversu hættuleg brautin er á þessum kafla og hefur undanfarin ár þrýst á stjórnvöld að klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Banaslys sem var á Reykjanesbrautinni til móts við Vallahverfi í gærmorgun hefur vakið hörð viðbrögð innan hópsins.
Guðbergur Reynisson, annar þeirra sem fer fyrir hópnum, segir að hópurinn hafi lengi bent á hversu hættuleg brautin sé á þessum kafla og hættuna á banaslysum. „Þessi kafli þar sem þetta slys gerist er kominn á samgönguáætlun en við börðumst fyrir tveimur árum fyrir því að koma Reykjanesbrautinni á samgönguáætlun og náðum því. Í nýjustu samgönguáætluninni er kaflinn frá flugstöðinni að Fitjum í Reykjanesbæ og svo frá Hvassahrauni inn í Hafnarfjörð kominn aftur til 2033. Við erum búin að vera að benda á það síðustu daga að þetta gangi ekki. Það er alltof mikil hætta á banaslysum á þessum hættulegasta kafla landsins. Það sannast núna í dag,“ segir Guðbergur í viðtali við Rúv í gær
Hópurinn skoðar nú að loka Reykjanesbrautinni í mótmælaskyni: „Við erum búin að hóta því. Það virðist vera eina leiðin til að ná eyrum ráðamanna að gera eitthvað róttækt. Fyrir tveimur árum síðan ákváðum við að fara ekki í svona róttækar aðgerðir og okkur tókst að ná fram ýmsum umbótum. Við fengum hringtorg og við náðum að láta loka þar sem Hafnavegurinn kom inn á Reykjanesbrautina. Við höldum að þetta sé núna eina leiðin til að ná eyrum ráðamanna,“ segir Guðbergur
Skiptar skoðanir innan hópsins
Ísak Ernir Kristinsson, annar stofnenda þrýstihópsins Stopp, hingað ekki lengra, kveðst ekki sammála Guðbergi Reynissyni, hinum stofnenda hópsins, um að vegurinn verði lokaður í mótmælaskyni.
„Ég trúi ekki á svona aðgerðir,“ segir Ísak Ernir í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. „Frá því að við Guðbergur Reynisson stofnuðum þrýstihópinn „Stopp, hingað og ekki lengra” hefur hópurinn náð eftirtektarverðum árangri í að bæta umferðaröryggi á Reykjanesbraut! Frá upphafi hafa verið uppi háværar raddir um að fara í lokanir á Reykjanesbrautinni til þess eins að vekja athygli á málstaðnum. Ég hef alla tíð og er enn algjörlega mótfallinn svoleiðis aðgerðum enda hefur málefni Reykjanesbrautar verið í brennidepli! Við höfum náð árangri þó fullnaðarsigrinum hafi enn ekki verið náð,“ segir Ísak Ernir.
Ísak kveðst ekki sammála ummælum Guðbergs um að róttækar aðgerðir séu eina leiðin til að ná til eyra ráðamanna. „Stöndum saman og vinnum málin á eðlilegan máta: í gegnum stjórnsýsluna og á sviði stjórnmálanna. Samgönguáætlun er til umfjöllunnar á Alþingi og er ekki útséð með að henni verði breytt okkur til hagsbóta! Það skal þó skýrt tekið fram að samgönguáætlun Sigurðar Inga olli mér MIKLUM vonbrigðum! Áætlun með kolrangri forgangsröðun!“
Varðstjóri varar við lokun
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að enginn hafi leyfi til að loka vegum án leyfis. Guðbergur bendir á að tvöföldun Reykjanesbrautar hafi verið sett á 15 ára áætlun á síðustu samgönguáætlun. „Við vegum þetta og metum þegar þar að kemur. Ef þetta truflar gang samfélagsins og rýrir umferðaröryggi grípum við til okkar ráða,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, en bætir við að auðvitað sé ævinlega fyrst reynt að höfða til skynsemi fólks. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Guðbrandur segir að það sé lýðræðislegur réttur allra að mótmæla en það takmarkast við að mótmælin skapi ekki hættu. Guðbrandur segir að það sé þá sem lögreglan grípi inn í. Hann segist skilja áhyggjur fólks en betra sé ef fólk fari ekki að hlaupa á sig með svona aðgerð. „Þar að auki er ekki víst að þetta sé vegna vegakerfisins. Ýmsir aðrir þættir spila inn í svona mál, eins og athygli ökumanns,“ bætir hann við.