Hagar hafa undirritað kaupsamninga um allar eignir sem félagið þarf að selja til að uppfylla sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa þess á Olís. Óháður kunnáttumaður hefur skilað áliti og metið kaupendur eignanna hæfa.
Um er að ræða þrjár Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu en Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi og annar eigandi vefverslunarinnar Boxins, er sá sem mun kaupa. Um er að ræða Bónusverslanirnar á Hallveigarstíg, Smiðjuvegi og í Faxafeni. Sigurður Pálmi er sonur Ingibjargar Pálmadóttur, en faðir hennar stofnaði og rak Hagkaupsveldið um árabil. Eiginmaður Ingibjargar er Jón Ásgeir Jóhannesson, stofnandi Bónus. Félög tengd þeim hjónum eiga um fimm prósenta hlut í Högum.
Vörusala jókst lítillega
Hagnaður Haga á fyrstu sex mánuðum ársins var 1.436 milljónir króna og vörusala félagsins nam 37,7 milljörðum króna. Það er um 500 milljónum meiri sala en var hjá félaginu á sama tímabili á síðasta rekstrarári. Framlegð félagsins var 9.155 milljónir króna, samanborið við 9.197 milljónir króna árið áður eða 24,3 prósent framlegð samanborið við 24,7 prósent á fyrra ári.
EBITDA-hagnaður var tæplega 2,4 milljarðar króna og eigið fé félagsins í lok tímabilsins var 18,3 milljarðar króna. Það þýðir að eiginfjárhlutfallið var 60 prósent.
Hlutabréf í Högum hafa lækkað um 4,55 prósent í 290 milljón króna viðskiptum það sem af er degi. Ekkert félag í Kauphöll Íslands hefur lækkað jafn mikið í dag.