Hagspár hagfræðinga og greinenda Arion banka og Landsbankans fyrir næstu þrjú ár eru gjörólíkar þegar kemur að þróun fasteignamarkaðarins.
Í hagspá Arion banka kemur fram að fasteignaverð muni lækka að raunverði út árið 2021, það er verð lækki að teknu tilliti til verðbólgu, en Landsbankinn spáir áframhaldandi hækkun á fasteignaverði og að það muni hækka á síðustu mánuðum ársins umfram það sem hefur verið undanfarna 12 mánuði.
Munurinn á spánum liggur meðal annars í því að í spá Arion banka birtist spá um meira verðbólguskot, og að hún fari yfir 5 prósent strax á næsta ári. Landsbankinn gerir ráð fyrir að verðbólga fari hækkandi, og verði að meðaltali 3,3 prósent út tímabilið 2019 til og með 2021.
Landsbankinn spáir því að fasteignaverð hækki um 4,3 prósent á þessu ári, 4 prósent á næsta ári, 6 prósent árið 2020 og 8 prósent árið 2021. Þetta eru nafnverð, en að teknu tilliti til verðbólgu er engu að síður um áframhaldandi hækkun á fasteignaverði að ræða, samkvæmt spánni.
Arion banki gerir ráð fyrir að fasteignaverð lækki um 2 til 3 prósent að raunvirði á spátímanum.
Undanfarna tólf mánuði hefur verulega verið að hægja verðhækkunum á fasteignamarkaði. Hún mælist nú 3,9 prósent en fór hæst í 23,5 prósent - sem þá var með mestu árlegu hækkun á fasteignamarkaði í heiminum - á vormánuðum í fyrra.