Forstjóri Icelandair Group segist ekki trúa öðru en að fargjöld muni hækka í takt við hækkanir á olíuverði. Samkvæmt Boga Nils Bogason, sem settist tímabundið í forstjórastól félagsins í kjölfar brotthvarfs Björgólfs Jóhannssonar í ágúst, þurfa flugfélög til lengri tíma litið að selja flugæsti á hærra verði en það kostar að framleiða þau. Afkomuhorfur félagsins munu ráðast að miklu leyti af þróun flugfargjalda á næstu mánuðum. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál, í dag.
Hagnaður Icelandair eftir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) var 115 milljónir dala, um 14 milljarðar króna, á þriðja ársfjórðungi, sem er vanalega sterkasti ársfjórðungurinn í rekstri félagsins, enda nær hann yfir júlí, ágúst og september sem eru með stærstu mánuðum ársins í ferðaþjónustu. Það eru umtalsvert lægri rekstrarhagnaður en Icelandair var með á sama ársfjórðungi í fyrra, þegar hann var 156 milljónir dala, eða tæplega 19 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Um er að ræða samdrátt upp á 26 prósent.
Í umfjöllun Markaðarins var greint frá því að fjárfestar tóku vel í uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung, sem birt var eftir lokun markaða á þriðjudag, en til marks um það ruku hlutabréf í félaginu upp um 7,4 prósent í verði í 530 milljóna króna viðskiptum í gær. Samkvæmt Elvari Inga Möller, sérfræðingi hjá greiningardeild Arion banka, eru skilaboð félagsins sú að þau hafi tekist að leiðrétta þann vanda í leiðakerfinu sem olli misvægi á milli flugframboðs á til Evrópu annars vegar og Norður- Ameríku hins vegar og að á næsta ári verði misvægið á bak og burt.
Félagið að ná tökum á innri vandamálum
Elvar Ingi segir félagið hafa glímt við eins konar innri vandamál. „Ytri þættir sem félagið hefur litla stjórn á, svo sem þróun á olíuverði og flugfargjöldum, hafa lítið breyst til hins betra að undanförnu en hins vegar segir félagið að það sé að ná tökum á innri vandamálunum og að þau ættu bráðlega að vera úr sögunni. Skilaboðin eru jákvæð og nú verður að sjá hvort þau raungerist.“ Samkvæmt umfjöllun Markaðarins þá er Icelandair Group að vinna að því að bæta tekjustýringarleiðir sínar og leita leiða til hagræðingar, svo sem með betri nýtingu á starfskröftum og aukinni sjálfvirknivæðingu .
„Afkomuhorfur félagsins munu ráðast að miklu leyti af þróun flugfargjalda á næstu mánuðum. Nánast hver einasti forstjóri flugfélags í Evrópu hefur sagt að farmiðaverð muni hækka en það hefur samt ekki hækkað enn. Jafnan gengur ekki upp. Það má kannski velta því fyrir sér hvort framboðið sé of mikið og félög séu hrædd um að verðhækkanir muni koma niður á eftirspurninni og nýtingu,“ segir Sveinn Þórarinsson, greinanda í hagfræðideild Landsbankans í samtali við Markaðinn.