„Ég hef sagt að við eigum að áskilja okkur rétt til þess að skylda sveitarfélög til þess að hækka hlutfall sitt af félagslegum íbúðum í eigu sveitarfélaga. Bara með lögum. Það verður að gera það með lögum ef það gerist ekki öðruvísi.“
Þetta sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi þegar hann var spurður út í stöðu félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að neðan.
Mikill skortur er á félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og biðlistar eftir slíku langir. Í lögum um húsnæðismál og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eru ekki tilgreind töluleg viðmið um hversu mikið af félagslegu húsnæði sveitarfélög skulu bjóða upp á. Sú staða leiðir til þess að sveitarfélög innan höfuðborgarsvæðisins leggja mismikla áherslu á framboð félagslegra íbúða. Samkvæmt nýrri könnun Varasjóðs húsnæðismála, sem birt var í nýrri skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála sem kynnt var á nýafstöðnu húsnæðisþingi, eru til að mynda 18 sinnum fleiri félagslegar íbúðir miðað við höfðatölu í Reykjavík en eru í Garðabæ.
Í þættinum kom fram að Degi finnist yfirstandandi ástand ekki ganga lengur. „Reykjavík býr um þriðjungur landsmanna. En borgin er að standa fyrir 80-90 prósent af þeirri félagslegu húsnæðisuppbyggingu sem er í gangi. Við erum að taka langstærsta skerf af þessum nauðsynlegu verkefnum, og það eru allir sammála um að þessar áherslur séu nauðsynlegar. Núna er búið að tala um þetta ansi lengi. Og ég er búinn að tala um þetta.“
Hann segir Reykjavík einnig vera í algjörri forystu þegar kemur að samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög og úthlutun lóða til slíkra. „Ég velti því fyrir mér, í tengslum við kjarasamninga, hvort það sé ekki hægt að ná einhverju stærra samkomulagi um meiri aðkomu annarra, og aðkomu okkar, að því til framtíðar þannig að þau plön séu þá kláruð.“