Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem áður hét Brim, hefur keypt þriðjungshlut í Solo Holding ehf. sem á níu prósent hlut í Iceland Seafood International. Kaupverðið er samkvæmt upplýsingum Kjarnans, 8,02 krónur á hlut. Það þýðir að Útgerðarfélagið greiðir um 652 milljónir króna fyrir hlutina og mun eiga um 3,5 prósent beinan hlut í Iceland Seafood.
Aðrir eigendur Solo Holding eru Sjávarsýn ehf., félag í eigu Bjarna Ármannssonar, Jakob Valgeir ehf., og Nesfiskur ehf. Þessir þrír aðilar eiga auk þess hver um sig 16,67 prósent hlut í Solo Holding auk þess sem þeir eiga beint hluti í Iceland Seafood, sem er sölu- og markaðsfyrirtæki í útflutningi á ferskum, frosnum og söltuðum sjávarafurðum.
Þétta raðirnar
Bjarni Ármannsson, sem er stjórnarformaður Solo Holding, segir í samtali við Kjarnann að aðkoma Útgerðarfélags Reykjavíkur að Iceland Seafood sé mjög mikilvæg. „Það er að mínu mati mjög mikilvægt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi á Íslandi þétti raðirnar og standi saman, sérstaklega þegar kemur að sölu- og markaðsmálum á alþjóðavettvangi. Þetta er að mínu mati mikilvægt skref á þeirri vegferð.“
Íhuga að skrá félagið á aðalmarkað
Iceland Seafood keypti fyrirtækið Solo Seafood á 7,8 milljarða króna sumar. Kaupverðið var greitt með útgáfu nýrra hlutabréfa. Eigendur Solo, ofangrein félög, eignuðust við það 44 prósent hlut í Iceland Seafood International. Hópurinn bætti svo við sig hlutum í félaginu í september.
Fréttablaðið greindi frá því í upphafi ágústmánaðar að stjórnendur Iceland Seafood væru að íhuga að skrá félagið á aðalmarkað, en það er þegar skráð á First North-markaðinn. Það yrði þá annað sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð yrði á markað en fyrir þar er HB Grandi. Stærsti eigandi þess er, líkt og áður sagði Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem hefur nú keypt sig inn í Iceland Seafood.