„Staðreyndin er sú að þær launahækkanir sem við höfum verið að sjá í efstu lögunum, og kannski mest á almenna markaðnum sem er í meirihlutaeigu lífeyrissjóða[...]að launahækkanir þar eru úr öllum takti. Ef við sjáum ekki að menn geti setið á sér þar á næstu árum þá er rosalega erfitt að réttlæta það niður allan stigann að þetta sé ekki með þessum hætti.“
Þetta er meðal þess sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði
Í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við hann í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudagskvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Ásmundur Einar vakti nýverið athygli fyrir að segja að hann hefði það á tilfinningunni að hér byggju tvær þjóðir en ekki ein þegar hann skoðaði launauppbyggingu þjóðarinnar. Þörf væri á því að breyta skattkerfinu, meðal annars með hátekjusköttum. Þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var spurð út í áform um álagningu hátekjuskatt sagði hún að umræður um slíkan væru ekki hafnar og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði slíkar tillögur ekki vera á borðinu.
Ásmundur Einar segir einnig að það sé vilji til að endurreisa bótakerfin hérlendis og þar með auka tekjujöfnunarhlutverk ríkissjóðs. „
„Það er vilji til þess og ég held að það hafi komið skýrt fram í þeim skrefum – þó mönnum þyki þau ekki stór – sem stigin verða við gerð fjárlagafrumvarps næsta árs þar sem verið er bæði að gera breytinga á skattþrepunum og að hækka barnabæturnar.
Það er í gangi vinna við endurskoðun á skatta- og bótakerfinu á milli allra hlutaðeigandi ráðuneyta. Sá hópur hefur meðal annars átt fundi með aðilum vinnumarkaðar til þess að átta sig á því hvernig umræður munu þróast þar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að niðurstaðan úr þessu rími við þá niðurstaða sem hugsanlega geti orðið á milli aðila innan vinnumarkaðarins.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Ásmund Einar í heild sinni hér að neðan.