Íslandsbanki hagnaðist um 9,2 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2018. Það er lakari afkoma en var á sama tímabili í fyrra, þegar hagnaðurinn nam 10,1 milljarði króna. Arðsemi eigin fjár bankans, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, dróst einnig saman milli ára. Hún var 7,7 prósent í fyrra en var 7,1 prósent á fyrstu níu mánuðum þessa árs.
Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem Íslandsbanki sendi frá sér í morgun.
Íslandsbanki jók hreinar vaxtatekjur sínar milli ára um 4,3 prósent og vaxtamunur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 er sá sami og hann var á sama tímabili árið 2017, eða 2,9 prósent. Þá skilaði virðisbreyting á útlánum meiri hagnaði í ár en í fyrra og munaði þar 1,3 milljarði króna.
Hreinar þóknanatekjur Íslandsbanka drógust hins vegar umtalsvert saman milli ára, eða um 13,5 prósent. Þær voru 10,1 milljarður króna í fyrra samanborið við 8,7 milljarða króna það sem af er árinu 2018.
Þá jukust útlán til viðskiptavina um 10,6 prósent milli ára, eða um 80,4 milljarða króna og eru nú 836 milljarðar króna. Ný útlán á fyrstu níu mánuðum ársins voru 175,6 milljarðar króna.
Alls eru eignir Íslandsbanka 1.163 milljarðar króna og skuldir bankans 988 milljarðar króna. Eigið fé hans er því 174,6 milljarðar króna.