Málefni einstakra flugfélaga eru trúnaðarmál Isavia og viðkomandi flugfélags. Almennt greiðslufyrirkomulag er að tekin eru saman gjöld í lok hvers mánaðar og flugfélag hefur síðan annan mánuð í gjaldfrest.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli sem birt var á vef Alþingis í gær. Hann spurði hversu háum skuldum einstök flugfélög hefðu safnað frá og með árinu 2013, hverjar fjárhæðir stærstu skuldunauta væru og hversu stór hluti skuldanna væri kominn fram yfir gjalddaga.
Í frétt Kjarnans frá því í september síðastliðnum kemur fram að Isavia veiti ekki upplýsingar um það hverjar tekjur félagsins séu af viðskiptum við einstök flugfélög. Það veiti heldur ekki upplýsingar um hvort einhver flugfélög séu í vanskilum með lendingargjöld sín við Isavia en tekur fram að félagið vinni „með viðkomandi félögum að lausn mála ef upp koma tilvik þar sem vanskil verða á lendingargjöldum með hagsmuni Isavia að leiðarljósi.“
WOW air sagt skulda Isavia
Í svörum Isavia við fyrirspurn Kjarnans fyrr í haust kemur enn fremur fram að félagið gefi ekki upp hversu stór hluti tekna þess er tilkomin vegna einstakra viðskiptavina, til að mynda Icelandair eða WOW air.
Morgunblaðið greindi frá því þann 15. september síðastliðinn að WOW air skuldaði Isavia um tvo milljarða króna í lendingargjöld. Þar af hefði um helmingur skuldarinnar þegar verið gjaldfallinn. Í birtum árshlutareikningi Isavia kemur fram að viðskiptaskuldir félagsins hafi hækkað um rúmlega 1,2 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að frétt Morgunblaðsins væri röng. WOW air hefði aldrei skulda Isavia um tvo milljarða króna.
Hagnaður af rekstri fyrstu 6 mánuðina tæplega 1,6 milljarðar
Isavia er opinbert hlutafélag og að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Félagið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi auk þess sem það stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Isavia á fjögur dótturfélög. Þau eru Fríhöfnin ehf., TernSystems ehf., Domavia ehf. og Suluk APS. Samstæðan velti 38 milljörðum króna í fyrra og skilaði tæplega fjögurra milljarða króna hagnaði.
Á fyrri hluta ársins 2018 voru rekstrartekjur Isavia um 19 milljarðar króna sem var um 12 prósent meira en á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af rekstri eftir fyrstu sex mánuði ársins var tæplega 1,6 milljarðar króna.
Hafa beitt einum flugrekanda stöðvunarheimild frá 2013
Jón Steindór spurði jafnframt hvort einhverjum flugfélögum hefði verið neitað um viðskipti vegna vangreiddra gjalda frá og með árinu 2013. Í svari ráðherra kemur fram að frá og með árinu 2013 hafi Isavia beitt stöðvunarheimild gagnvart einum flugrekanda en að öðru leyti hafi engum flugrekanda verið synjað um viðskipti vegna vangreiddra gjalda enda verði ekki séð að það sé heimilt. Um hafi verið að ræða stöðvun á flugvél í þjónustu Air Berlin sem kyrrsett var haustið 2017. Nokkur eldri sambærileg dæmi séu til um þetta.