63 prósent almennings á Íslandi er fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, ferðamenn nefna sem aðdráttarafl hálendisins að þar sé einstök náttúra og þverpólitísk nefnd vinnur nú að því að undirbúa stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þetta er meðal þess sem kom fram á Umhverfisþingi sem umhverfis- og auðlindaráðherra hélt þann 9. nóvember síðastliðinn og birtist í frétt ráðuneytisins.
Michaël Bishop kynnti niðurstöður spurningakönnunar sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fram kom að tæplega 63 prósent af þeim sem tóku afstöðu eru fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu en tæplega 10 prósent andvíg honum.
Fram kom að ríflega 75 prósent þeirra sem eru fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu taka fram að hann myndi vernda mörg svæði sem ekki njóta verndar í dag, rúmlega 70 prósent þeirra að hann myndi vernda miðhálendið sem eina heild og 68 prósent að hann myndi auka skilning á verðmæti miðhálendisins. Rannsóknin var hluti af meistaraverkefni Michaëls í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands.
Tillaga um miðhálendisþjóðgarð er skrifuð í sáttmála ríkisstjórnar Íslands og fram kom á Umhverfisþinginu að þverpólitísk nefnd sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði síðastliðið vor vinnur nú að framgangi málsins. Í máli Óla Halldórssonar, formanns nefndarinnar, kom fram að nefndin væri byrjuð að fjalla um mörk þjóðgarðsins og að stefnt væri að samráðsfundum með sveitarfélögum og nytjaréttarhöfum en slíkt samtal væri afar mikilvægt. Nefndin mun skila af sér tillögu að lagafrumvarpi næsta haust.
Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, kynnti rannsóknir sína á viðhorfum ferðamanna á miðhálendinu en hún hefur í gegnum tíðina lagt spurningalista fyrir alls 9.000 ferðamenn á hálendinu og tekið viðtöl við hátt í 300 manns. Í máli hennar kom meðal annars fram að ferðamenn nefna sem aðdráttarafl hálendis að þar sé einstök og lítt snortin náttúra, einfaldleiki, kyrrð og fámenni.
Beinn efnahagslegur ávinningur 10 milljarðar
Í frétt Kjarnans sem birtist síðastliðinn föstudag kemur fram að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Íslandi séu ótvírætt jákvæð en á árinu 2017 hafi beinn efnahagslegur ávinningur tólf svæða og nærsamfélaga þeirra verið um 10 milljarðar króna. Ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild hafi verið 33,5 milljarðar króna.
Samkvæmt niðurstöðum fyrstu rannsóknar sem gerð hefur verið á landsvísu á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða á Íslandi eyða ferðamenn árlega samtals 10 milljörðum íslenskra króna innan þeirra svæða sem rannsökuð voru eða í næsta nágrenni þeirra. Þetta skapar um 1.800 störf á umræddum stöðum eða um 1.500 full stöðugildi. Um er að ræða bein störf í ferðaþjónustu, svo sem við gistingu, skipulagðar ferðir, akstur og veitingaþjónustu. 45 prósent af eyðslu ferðafólks var inni á friðlýstu svæðunum eða í næsta nágrenni þeirra. Rannsóknir sýnir að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka.
„Enginn má hafa afnot af þjóðlendu fyrir sjálfan sig“
Samráð um drög að stefnu um samþykki fyrir nýtingu lands og landsréttinda í þjóðlendum stendur nú yfir í samráðsgátt stjórnvalda til 30. nóvember næstkomandi.
Í henni kemur fram að nú séu alls 217 þjóðlendur á landinu og þeki þær um 86 hundraðshluta miðhálendisins og 44 hundraðshluta landsins alls, ef miðað er við þau landsvæði sem óbyggðanefnd hefur tekið til meðferðar og úrskurðað.
„Enginn má hafa afnot af þjóðlendu fyrir sjálfan sig. Til slíkra afnota telst meðal annars að reisa mannvirki, hvers konar jarðrask sem og nýting hlunninda, vatns- og jarðhitaréttinda. Öll slík afnot eru leyfisskyld. Leyfisveitingarhlutverkinu er skipt á milli forsætisráðherra annars vegar og sveitarstjórna hins vegar. Nýting vindorku, vatns- og jarðhitaréttinda, námuvinnsla og önnur jarðefnanýting er háð leyfi ráðherra. Að öðru leyti þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar til að nýta land og landsréttindi. Sé nýting sem sveitarstjórn heimilar til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki ráðherra.
Í ljósi mikilvægis þess að setja fram í stefnu þau sjónarmið sem ráðherra leggur til grundvallar við ákvörðun um samþykki fyrir nýtingu lands og landsréttinda, sem sveitarfélög hyggjast veita leyfi fyrir, hefur forsætisráðuneytið mótað stefnu um það hvernig ráðherra beitir samþykktarhlutverki sínu. Með því er unnt að skapa aukinn fyrirsjáanleika og festu í stjórnsýsluframkvæmd ráðuneytisins,“ segir á samráðsgátinni.