Læknafélag Íslands skorar á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum eftir því fyrirkomulagi sem nú er til staðar vegna skaðlegra áhrifa rafretta. Samkvæmt ályktun Læknafélagsins þarf að finna viðeigandi lausn á sölu rafretta sem hjálpartæki til að hætta reykingum, með því til dæmis að selja þær í apótekum en í ályktuninni segir að núverandi sölufyrirkomulag sé óásættanlegt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Læknafélaginu en aðalfundur félagsins var haldinn síðasta fimmtudag þar sem sjö ályktanir voru samþykktar um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál.
Í ályktuninni kemur fram að tæplega fjórðungur tíundabekkinga hafi reykt rafrettur einu sinni eða oftar síðastliðinn mánuð samkvæmt nýbirtum lýðheilsuvísis landlæknis. Því þykir Læknafélaginu rétt að bregðast við en samkvæmt félaginu stefnir þessi þróun þeim mikla árangri sem Íslendingar hafa náð í minnka reykingar barna í hættu.
Lög um rafrettur samþykkt í sumar
Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum ný lög varðandi rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur en lögin öðlast gildi í mars 2019. Í lögunum segir að markmið laganna sé að veita heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar rafrettna og tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn geti ekki keypt rafrettur.
Seinna í sama mánuði sendi Læknafélag Íslands frá sér ályktun um lögin, þar sem skorað var á heilbrigðisráðherra að leggja fram lagabreytingartillögu við framangreind lög um að bætt verði við að bannað væri að nota rafrettur á veitinga og skemmtistöðum. LÍ telur það ganga gegn settum lýðheilsumarkmiðum um að draga úr reykingum og neyslu ávana- og fíkniefna s.s. nikótíns að ekki skuli hafa verið bannaðar reykingar rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum í hinum nýju lögum.
Í tóbaksvarnarlögum eru reykingar óheimilar á veitinga- og skemmtistöðum vegna mögulegra áhrifa á óbeinar reykingar geta haft á heilsufar þeirra sem viðstaddir eru. Samkvæmt ályktuninni telur LÍ mikilvægt að sömu heilbrigðis- og forvarnarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar kemur að reykingum á rafrettum.
„Við meðferð laga um rafrettur á Alþingi var lagt til að sambærilegt bann yrði sett fyrir notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum. Með naumum meirihluta, 26 atkvæðum gegn 25 var sú breytingartillaga felld. Þegar hin nýju lög um rafrettur ganga í gildi verður eigendum veitinga- og skemmtistaða því í sjálfsvald sett hvort reykja megi rafrettur á þessum stöðum,“ segir í ályktun Læknafélagsins.
Læknafélagið lýsti í ályktuninni yfir sérstökum áhyggjum í þessu tilliti vegna viðkvæmra hópa s.s. barna, fyrrverandi reykingafólks og einstaklinga með viðkvæma hjarta- og lungnasjúkdóma. Í ályktuninni segir að mikilvægt sé virða rétt þeirra sem náð hafa að hætta neyslu nikótíns, en að þeir aðilar verði með þessum hætti óhjákvæmilega fyrir áhrifum óbeinna reykinga. LÍ hvetur því í ályktuninni alþingismenn til að lagfæra þau mistök sem félagið telur að gerð hafi verið við afgreiðslu framangreindrar breytingartillögu. Takist ekki með lagabreytingu að banna reykingar rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum skorar stjórn Læknafélags Íslands á eigendur þessara staða að banna reykingar rafretta á stöðum sínum þegar nýju lögin ganga í gildi.
Notkun rafretta hefur ekki haft áhrif á sölu nikótínlyfja
Kjarninn greindi frá því á síðasta ári að samkvæmt söluaðilum nikótínlyfja á Íslandi hafði aukin notkun rafretta ekki áhrif á sölu þeirra. Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan lyfjafyrirtækisins benti á í samtali við Kjarnann að ekki væri búið að sanna að rafrettur hjálpi fólki að hætta að reykja. En samkvæmt söluaðilum eru rafrettur í óbeinni samkeppni við nikótínlyfin vegna mismunandi markhóps, unga fólkið sem notar rafrettur í mestu mæli notar varla nikótínlyf. Rannsóknir hafa á hinn bóginn sýnt að átta af tíu sem nota rafrettur reyktu einnig.