Í lok árs 2017 voru félagslegar íbúðir í Hafnarfirði 255 talsins, en ekki 244 líkt og kom fram í tölum frá Varasjóði húsnæðismála sem Kjarninn greindi frá 7. nóvember síðastliðinn. Varasjóðurinn telur árlega allt félagslegt húsnæði sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ má rekja villuna í tölum Varasjóðsins til þeirra gagna sem sveitarfélagið sendi til hans. Nú sé hins vegar verið að vinna í því að uppfæra þau gögn.
Þá segist Hafnarfjarðarbær hafa keypt 13 íbúðir það sem af er ári og stefni að því að kaupa tvær til viðbótar fyrir árslok. Búið sé að ákveðna að leggja 500 milljónir króna á ári allt til ársins 2021 til kaupa á félagslegum íbúðum. Þeir fjármunir eigi að nýtast til að kaupa fleiri minni íbúðir, eða allt að 16 á ári næstu árin.
Upplýsingafulltrúi Garðabæjar hafði áður gert athugasemd við tölur Varasjóðsins, sem sögðu að sveitarfélagið ætti 23 félagslegar íbúðir. Það segir þó sjálft að félagslegu íbúðirnar séu 29 talsins.
Mikill munur milli sveitarfélaga
Til félagslegs húsnæðis teljast félagslega leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.
[adpsot]Í fréttaskýringu Kjarnans, sem byggði á tölum Varasjóðs húsnæðismála, kom fram að félagslegum íbúðum hefði fjölgað um 96 í fyrra og hefðu verið 3.303 í lok árs. Þegar búið er að taka tillit til athugasemda Hafnarfjarðar og Garðabæjar þá hækkar sú tala í 3.320 alls. Af þeim voru 2.513 í Reykjavík í byrjun árs 2018, eða 76 prósent allra slíkra.
Í Reykjavík eru því tæplega 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa og í Kópavogi eru þær tæplega 13. Í Hafnarfirði eru þær um átta.
Þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka mun minni þátt í því að sjá þurfandi fólki fyrir félagslegu húsnæði. Í Garðabæ eru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa, í Mosfellsbæ voru tæplega þrjár á hverja þúsund íbúa og á Seltjarnarnesi um 3,5 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa.