Fólk hefur í meira mæli á þessu ári tekið óverðtryggð lán heldur en árin á undan, en verðtryggð húsnæðislán eru þó enn vinsælli hjá þeim sem standa í fasteignaviðskiptum.
Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Samkvæmt tölum frá stóru bönkunum þremur, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum, hafa verðtryggð lán verið mun vinsælli og á heildina litið er um 70 prósent húsnæðislána verðtryggður en um 30 prósent óverðtryggður.
Á þessu ári hefur fólk hins vegar meira verið að taka óverðtryggð lán, og hefur hlutfallið verið á milli 40 og 50 prósent í óverðtryggða flokknum á móti 50 til 60 prósent í verðtryggða flokknum.
Einn munur á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er sá, að greiðslubyrðin er þyngri á óverðtryggðu lánunum fyrstu árin.
Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í fréttaskýringum á vef Kjarnans að undanförnu, þá bendir margt til þess að verðbólga muni á næstunni fara hækkandi. Þá hafa spár greinenda um horfur á fasteignamarkaði verið misvísandi, en greining Arion banka spári verðlækkun á markaði, að raunvirði, horft til næstu þriggja ára.
Flestar spár gera þó ráð fyrir að verð hækki töluvert minna á næstu árum en reyndin hefur verið undanfarin ár. Fasteignaverðshækkun mælist nú 3,9 prósent á ársgrundvellli, en hún mældist 23,5 prósent á vormánuðum í fyrra.