Í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur er aðdragandinn að veitingu 500 milljón evra neyðarláns Seðlabanka Íslands til Kaupþings rakinn ítarlega og ýmsar áður óbirtar upplýsingar birtar um þann aðdraganda. Þar eru einnig nýjar upplýsingar um hvernig neyðarláninu var ráðstafað.
Á meðal þess sem þar er greint frá er að þann 21. apríl 2008 var samþykkt sérstök bankastjórnarsamþykkt, nr. 1167, um hver viðbrögð Seðlabanka Íslands við lausafjárvanda banka ætti að vera. Í reglunum var sérstaklega kveðið á um að skipa ætti starfshóp innan bankans til að takast á við slíkar aðstæður og gilda ætti ákveðið verklag ef aðstæður sem kölluðu á þrautarvaralán kæmu upp. Verklaginu var skipt í alls sex þætti. Í samþykktinni var líka fjallað um við hvaða skilyrði lán til þrautarvara kæmu til greina og í henni var settur fram ákveðinn gátlisti vegna mögulegra aðgerða Seðlabankans við slíkar aðstæður.
Þegar Kaupþing fékk 500 milljónir evra lánaðar 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, var ekki farið eftir þeirri bankastjórnarsamþykkt. Þá er ekki til nein lánabeiðni frá Kaupþingi í Seðlabankanum og fyrir liggur að Kaupþingi var frjálst að ráðstafa láninu að vild.
Lánaði 171 milljón til Lindsor
Þann 6. október 2008, þegar Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi neyðarlán upp á 500 milljónir evra, veitti Kaupþing félaginu Lindsor, sem stýrt var af stjórnendum bankans, 171 milljón evra lán til 25 daga. Engar tryggingar voru settar fram fyrir láninu. Skjöl sýna að við rannsókn málsins hafi Fjármálaeftirlitið metið það svo að tilgangurinn með láninu hafi ekki verið að lána fjármunina til sérstakra nota, heldur til að gefa Lindsor svigrúm til að nota fjármunina þegar því hentaði. Lánanefnd Kaupþings veitti ekki samþykki fyrir láninu og hvergi er minnst á Lindsor í fundargerðum hjá lánanefnd Kaupþings fyrir árið 2008.
Sama dag og Lindsor fékk 171 milljón evra að láni hjá Kaupþingi keypti félagið skuldabréf útgefin af Kaupþingi upp á 84 milljónir evra og 95,1 milljón dala ásamt skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi í japönskum jenum og krónum sem metin voru á 15,2 milljónir evra. Sé miðað við skráð gengi 16. október 2008, þegar Lindsor skipti evru í aðra gjaldmiðla til að jafna hjá sér bókhaldið, var upphæðin sem notuð var til kaupa á bréfunum 170,1 milljón evra, eða nánast sama upphæð og Kaupþing hafði lánað Lindsor. Seljandinn var dótturbankinn í Lúxemborg sem keypt hafði þorra viðkomandi bréfa sama dag af fjórum starfsmönnum sínum, eigin safni bankans og félagið Marple, sem skráð var í eigu Skúla Þorvaldssonar. Hann segir félaginu þó ætið hafa verið stjórnað af Kaupþingi og að hann hafi ekki haft vitneskju um hvað átti sér stað innan þess.
Bjargað frá tapi
Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið á Íslandi sendi fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg 22. janúar 2010 var óskað eftir því að Lindsor-málið svokallaða yrði rannsakað þar í landi. Í bréfinu er rakið að í ágúst 2008 hafi áðurnefndir fjórir starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg keypt skuldabréf útgefin af Kaupþingi með afslætti.
Einn þeirra seldi bréfin til baka þremur dögum fyrir neyðarlagasetningu en hinir seldu þau á tímabilinu 6-8. október 2008. Kaupandinn var Kaupþing í Lúxemborg sem áframseldi þau svo til Lindsor, sem notaði fjármuni frá Kaupþingi á Íslandi til að kaupa bréfin, sem þá voru orðin verðlítil.
Sölur fjórmenninganna voru að mati Fjármálaeftirlitsins framkvæmdar til að bjarga þeim frá því að hafa þurft að taka á sig mikið tap vegna skuldabréfakaupa sem þau höfðu tekið lán til að kaupa. Í bréfinu frá janúar 2010 segir enn fremur að viðskiptin hafi virst vera leið til að koma viðbótarfjármagni frá Kaupþingi í Lúxemborg til þessara starfsmanna. Þar er Lindsor lýst sem „ruslatunnu“ (e. rubbish bin) sem hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að Kaupþing í Lúxemborg og tengdir aðilar þyrftu að taka á sig tap vegna fjárfestinga sem þeir hefðu ráðist í.