Bandaríska leyniþjónustan CIA telur krónprins Sádí-Arabíu, Mohammed bin Salman, hafa fyrirskipað morðið á Jamal Khashoggi, pistlahöfundi Washington Post, en hann var drepinn af aftökusveit 3. október síðastliðinn í sendiráðsbústað Sádí-Arabíu í Istanbul.
Erdogan Tyrklandsforseti hefur fullyrt að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið og bandaríska leyniþjónustan tekur undir þetta, samkvæmt fréttum Washington Post.
Í Washington Post er fullyrt að CIA búi yfir upplýsingum sem sanni aðild krónprinsins að morðinu, meðal annars upptökur af samtali hans við bróðu sinn, Khalid bin Salman, sem er sendiherra Sádí-Arabíu gagnvart Bandaríkjunum.
Samkvæmt frásögn Washington Post þá talaði Khalid við Khashoggi í síma og sagði honum að ná í gögn í sendiráðið í Istanbul, sem hann þurfti til að geta gifst tyrkneskri kærustu sinni.
Fimmtán manna aftökusveit eru grunuð um að hafa framkvæmt morðið, en það er nú opinberlega rannsakað bæði í Tyrkland og Sádí-Arabíu.
Í yfirlýsingu frá sendiráði Sádí-Arabíu í Washington er því harðlega neitað að krónprinsinn hafi átt þátt í morðinu, og því er einnig neitað sendiherrann hafi rætt við Khashoggi um að fara í sendiráðið í Istanbul.
Washington Post hefur fjallað ítarlega um öll skref rannsóknar í málinu. Khashoggi var gagnrýnandi stjórnvalda í Sádí-Arabíu og skrifaði meðal annars pistla, þar sem hann sagði stríðið í Jemen verða skammarlegt fyrir Sádí-Arabíu og Bandaríkin og að það þyrfti að stöðva.