Kvika banki hefur keypt allt hlutafé í GAMMA Capital Management á tæplega 2,9 milljarða króna. GAMMA verður eftir kaupin dótturfélag Kviku.
Miðað við bókfært virði árangurstengdra þóknana hjá GAMMA í lok júní 2018 nemur kaupverðið þó 2,4 milljörðum króna. Kaupverðið er greitt með 839 milljónum króna í reiðufé, með hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA upp á 535 milljónir króna auk þess sem árangurstengdar greiðslur sem metnar eru á 1.032 milljónir króna verða greiddar þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Verðið er umtalsvert lægra en til stóð að greiða fyrir GAMMA þegar tilkynnt var um viljayfirlýsingu um kaupin í júní síðastliðnum. Þá kom fram að kaupverðið ætti að vera 3.750 milljónir króna.
Endanlegt kaupverð liggur ekki fyrir
Í tilkynningu til Kauphallar segir að hluthafar GAMMA muni einnig eiga „rétt til aukinna greiðslna vegna árangurstengdra þóknana fasteignasjóða félagsins. Kaupverðið á GAMMA getur jafnframt tekið breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast á næstu misserum.“
GAMMA er tíu ára gamalt sjóðsstýringarfyrirtæki sem rekur nokkra af stærstu fyrirtækjaskuldabréfasjóðum landsins. Sjóðir þess eru líka á meðal stærstu fjárfestum á íslenskum fasteignamarkaði og alls er stærð þeirra um 140 milljarðar króna. Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin á GAMMA eftir.
Stærstu eigendur GAMMA voru Gísli Hauksson og Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða GAMMA, en báðir eiga þeir 31 prósenta hlut í fyrirtækinu. Gísli er hættur störfum hjá fyrirtækinu og sinnir nú eigin fjárfestingum. Þar að auki áttu Guðmundur Björnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fyrirtækisins og eignarhaldsfélagið Straumnes, sem er í eigu Fenger-barna, hvor sinn tíu prósenta hlut. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, átti einnig 5 prósenta hlut í fyrirtækinu.
Stefnt að því að sameina starfsemi í London
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir að salan styrki GAMMA. „Árangur GAMMA undanfarinn áratug er mikilsverður fyrir viðskiptavini, starfsmenn sem og hluthafa. Félagið er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og rekur fjölbreytt sjóðaúrval sem er um 140 milljarðar króna að stærð. Við hjá GAMMA lítum stolt um öxl á þessum tímamótum og björtum augum til framtíðar.“
Gísli Hauksson, stærsti eigandi GAMMA sem hætti störfum hjá fyrirtækinu fyrr á þessu ári, segir í tilkynningu að það felist mikil tækifæri fyrir hluthafa GAMMA að hluti kaupverðsins sé greiddur í hlutdeildarskírteinum sjóða félagsins.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að kaupin á GAMMA efli verulega eigna- og sjóðastýringu Kviku og auki umtalsvert vænta arðsemi bankans. „Stefnt er að því að sameina starfsemi félaganna í London, sem mun skjóta styrkari stoðum undir erlenda starfsemi bankans. Starfsfólk GAMMA hefur náð eftirtektarverðum árangri í sjóðastýringu á undanförnum árum og það er mikill fengur fyrir Kviku að fá góðan hóp til liðs við sig.“