Reykjavíkurborg ætlar að fjölga á leikskólarýmum um 700-750 á næstu fjórum til fimm árum. Þetta verður gert með því að innleiða alls sjö tillögur á tímabilinu. Kostnaðarmat stýrihóps sem vann tillögurnar gerir ráð fyrir að innleiðing þeirra kalli á 5,2 milljarða króna fjárfestingu á næstu fimm árum auk þess sem árlegur viðbótar rekstrarkostnaður vegna fjölgunar leikskólarýma verði allt að 1,4 milljarðar króna á ári.
Borgarráð samþykkti sömuleiðis að tillögu um stofnun stýrihóps sem hafi eftirlit með innleiðingu tillagnanna og þeim framkvæmdum sem þær kveða á um.
Tekið inn tvisvar á ári
Í tillögunum felst meðal annars að byggja fimm nýja leikskóla, reisa viðbyggingar við að minnsta kosti fimm leikskóla borgarinnar og ljúka við að setja á fót sérútbúnar ungbarnadeildir við alla borgarrekna leikskóla sem hafa fjórar deildir eða fleiri á næstu fimm árum.
Að endingu verður stefnt að því að fjölga börnum hjá sjálfstætt reknum leikskólum og dagforeldrum í samstarfi við viðkomandi rekstraraðila.
Nýir leikskólar byggðir
Nýju leikskólarnir sem eiga að rísa verða staðsettir í Úlfarsárdal, við Kirkjusand, Njálsgötu, Vogabyggð og Skerjafjörð. Viðbyggingarnar sem byggja á verða við leikskólana Seljakot, Kvistaborg, Reynisholt og Hof auk leikskóla í Grafarvogi.
Þá kemur fram í tillögum stýrihópsins að á árunum 2018-2023 sé stefnt að því að börnum í sjálfstætt reknum leikskólum fjölgi um allt að 166 til viðbótar þeirri fjölgun sem þegar er orðin á haustmánuðum 2018.
Stýrihópinn skipuðu: Skúli Helgason formaður, Ilmur Kristjánsdóttir og svo í hennar stað Guðrún Alda Harðardóttir frá 24. nóvember 2016, Líf Magneudóttir, Jóna Björg Sætran, James Maddison, og Kjartan Magnússon en Örn Þórðarson tók sæti þess síðastnefnda í hópnum í september 2016. Starfsmaður hópsins var í byrjun Hildur Skarphéðinsdóttir en Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tók við af henni í september 2016.