Vopnuðum útköllum sérsveitar lögreglunnar hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum en það sem af er ári hefur sérsveitin sinnt 177 vopnuðum verkefnum og útköllum. Fjöldi vopnaðra útkalla jókst úr 108 útköllum árið 2016 í 298 útköll árið 2017 og því nærri þrefaldst á milli ári. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Smára Mccarthy, þingmanns Pírata.
Breyting á eðli brota og samsetningu brotamanna í landinu
Í svari dómsmálaráðherra segir að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur tilkynningum um fjölda vopnaðra einstaklinga fjölgað undanfarin ár og þar af leiðandi útköllum til að sinna þeim verkefnum en ástæða þess er meðal annars breyting á eðli brota og samsetningu brotamanna í landinu.
Í svari við spurningu Smára, um hvort að gerðar hafi verið breytingar á starfsreglum, málaflokkum eða aðgerðavenjum lögreglu á undanförnu ári, segir að ekki hafi verið gerðar breytingar á þessum sviðum varðandi sérsveit ríkislögreglustjóra heldur er skýrningin breyting á eðli brota og samsetningu brotamanna í landinu en tilkynningar um vopnaða einstaklinga hefur aukist til muna á milli ára en árið 2017 voru 174 tilkynningar til lögreglu um vopnaða einstaklinga en aðeins 83 árið 2016. Árið 2003 voru 65 tilkynningar um vopnaða einstaklinga og 52 útköll vopnaðra sérsveita.
Segir það hlutverk lögreglu að bregðast við tilkynningum
Smári spyr einnig hvort að það sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í löggæslumálum að fjölga vopnuðum verkefnum og útköllum lögreglu og ef svo er ekki hvort það standi til að sporna við þessari fjölgun í vopnuðum verkefnum lögreglunnar. Í svari við þeirri fyrirspurn segir dómsmálaráðherra að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga vopnuðum verkefnum eða útköllum lögreglu en tekið er fram að það sé hlutverk lögreglu að bregðast við tilkynningum um vopnaða einstaklinga.
Ekki kemur fram í svarinu hvort til standi að sporna við fjölguninni en fram kemur að ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir og verkefni til að styrkja starf lögreglunnar á undanförnum árum, til dæmis hefur viðbótarfjármagni verið varið til eflingar löggæslu almennt í landinu, búnaðarkaupa og umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá lögreglunni með fækkun lögregluembætta úr fimmtán í níu og aðskilnaði lögregluembætta og sýslumannsembætta árið 2015.
„Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt. Mikilvægt er að lögregla veiti eins góða þjónustu og mögulegt er á hverjum tíma í samræmi við það hlutverk sem henni er falið. Í því felst að gæta öryggis borgaranna með því að svara hjálparkalli hratt og örugglega, að stemma stigu við afbrotum, meðal annars með því að hafa afskipti þar sem brot, slys eða aðrar ófarir kunna að vera yfirvofandi og rannsaka brot og leiða hið sanna í ljós. Þessu hlutverki sinnir lögreglan á ýmsan hátt, svo sem með fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu til almennings og samstarfi við ýmsa aðila hérlendis og erlendis, auk rannsókna mála.“ segir jafnframt í svari dómsmálaráðherra.