Stefnt er að því að allt prófhald við Háskóla Íslands verði rafrænt innan nokkurra ára með tilkomu nýs prófakerfis sem skólinn er nú að innleiða og hefur reynst afar vel víða á Norðurlöndum. Þetta kemur fram í frétt Háskóla Íslands.
Hreinn Pálsson prófstjóri skólans segir að Háskóli Íslands sé meðal frumkvöðla í rafrænu prófahaldi hér á landi og hafi boðið upp á rafræn próf í einhverri mynd í um tuttugu ár. Það hafi hins vegar orðið geysileg framþróun í hönnun rafrænna prófakerfa undanfarin þrjú til fjögur ár sem gerir þeim kleift að innleiða rafrænt prófahald fyrir allan skólann.
Hann segir að í leit sinni að hentugu prófakerfi fyrir Háskóla Íslands hafi starfshópur innan skólans fljótlega beint sjónum sínum að hinum norrænu ríkjunum en þau virðist standa einna fremst í rafrænu prófhaldi.
Inspera-prófakerfið notað í háskólum á Norðurlöndunum
„Niðurstaða hópsins var að Inspera-prófakerfið væri okkar vænlegasti kostur. Það getur þjónað ólíkum þörfum mismunandi deilda skólans, það býður á 20 mismunandi tegundir spurninga og getur haldið utan um verkefnaskil og próf af fjölbreyttu tagi. Þá nýtist kerfið vel fyrir fjarpróf og allar úrlausnir skila sér inn strax til yfirferðar hjá kennara óháð því hvar próf er tekið. Þá hefur kerfið verið tekið upp í fjölmörgum háskólum á Norðurlöndum og gefist þar vel,“ segir Hreinn. Hann bætir því við að unnið sé að því að tengja Inspera og Uglu, innri vef skólans, þannig að heiti námskeiða, nemenda og einkunnir flæði á milli kerfanna.
Í umfjöllun HÍ segir að nemendur geti tekið próf í Inspera í tölvuverum HÍ eða á eigin tölvu, hvort sem er heima eða á prófstað. „Nemendur skrá sig inn á tiltekna slóð og taka próf í aðgengilegu og einföldu viðmóti. Umhverfi Inspera er læst sem þýðir að að ekki er hægt að vafra um netið en þó getur kennari skilgreint hvaða forrit eða vefsíður nemendur mega nálgast í prófinu,“ segir Hreinn.
Felur í sér fjárhagslegan og umhverfislegan ávinning
Innleiðing kerfisins felur líka í sér fjárhagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir skólann því hætt verður að ljósrita prófverkefni og prenta þar til gerðar prófbækur, sem nemendur hafa skrifað svör sín í hingað til, verða óþarfar, samkvæmt upplýsingum frá HÍ.
Í fréttinni segir enn fremur að nú þegar hafi nokkur próf farið fram í Inspera innan skólans og hafi framkvæmdin gengið vel. Hreinn segir innleiðinguna þó taka nokkur misseri. „Háskólinn í Bergen, sem er svipaður af stærð og Háskóli Íslands, hóf sína innleiðingu vorið 2015 með 5 prósent notkun. Á haustmisseri sama árs stökk notkun upp í 48 prósent og á vormisseri 2017 var hún komin upp í 67 prósent,“ segir hann og bætir því við að innan fárra ára verði það að þreyta skriflegt próf með handskrifæri að vopni vonandi hluti af þeim úrræðum sem bjóðast þeim nemendum sem glíma við tölvuhömlun.