Auðvitað er býsna mikið af fjármagninu að fara í gegnum nokkra stóra lífeyrissjóði. Að mínu viti er það eiginlega orðið of mikið sem stýrt er af til þess að gera fáum aðilum.“
Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut.
Stiklu úr þættinum er hægt að sjá hér að neðan.
Páll segist vilja taka það fram að hann sé þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir hafi að mörgu leyti staðið sig vel sem eigendur að skráðum fyrirtækjum á undanförnum árum. Það væri þó æskilegra að almenningur hafi meira um það að segja beint hvert fjármagnið úr þeim fer.
„Við í Kauphöllinni höfum því talað fyrir því að hluti viðbótarlífeyrissparnaðar, ráðstöfun hans í fjárfestingar væri ákveðin af lífeyrisþeganum sjálfum. Við sjáum enga hættu í því. Þegar þú ert í þeirri stöðu að fjórir lífeyrissjóðir eru kannski með þriðjung af markaðsvirðinu í kauphöllinni þá held ég að menn sjái það að það gengur ekki upp til lengdar.“
Páll vill að það verði skoðað að endurvekja skattalega hvata til að auka áhuga fólks á því að geyma sparnaðinn sinn í hlutabréfum. „Ég held að það væri athugandi mjög að búa til svona hvata. Þá á ég fyrst og fremst við skattalega hvata, eins og voru hér á tíunda áratug síðust aldar. Og gerðu alveg gríðarlega mikið. Hér er ég bara að tala um hóflegar fjárhæðir. Kannski 250 þúsund krónur á einstakling eða 500 þúsund á fjölskyldu sem hægt væri að fjárfesta og þá mögulega draga frá skattskyldum tekjum. Gegn því að viðkomandi héldi fjármagninu í skráðum hlutabréfum í ákveðinn tíma.“